Jón Jakobsson
Jón Jakobsson (11. febrúar 1738 – 22. maí 1808) var sýslumaður Eyfirðinga á 18. öld. Hann bjó á Espihóli í Eyjafirði.
Jón var sonur Jakobs stóra Eiríkssonar, kaupmanns við Búðir á Snæfellsnesi og konu hans Guðrúnar, dóttur séra Jóns Jónssonar á Staðarstað og víðar. Bróðir hans var Halldór Jakobsson sýslumaður.
Jón nam lög við Hafnarháskóla. Hann varð sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu 1768, settist að á Espihóli og var þar í fjóra áratugi. Hann er sagður hafa verið vinsæll meðal almennings og þekktur fyrir örlæti og gjafmildi við fátæka en kona hans, Sigríður Stefánsdóttir, er sögð hafa verið „merkiskona, en orðlögð fyrir nísku, harðbýlni og aðsjálni“ og er sagt að hann hafi stundum falið matvöru í heytóftum til að geta gefið snauðum í laumi. Jón var mjög fróður og átti gott bókasafn, sagður maður rammíslenskur í skapi, enda félagi og vinur Eggerts Ólafssonar og var með honum í bændasonaflokknum í Kaupmannahöfn, en þeir vildu hafa allt sem íslenskast og byggja á íslenskum rótum. Hann var líka upplýsingarmaður og áhugasamur um framfarir af ýmsu tagi, var meðal annars fyrstur til að gera tilraunir með vetrarrúning á sauðfé og stóð fyrir póstferðum.
Sigríður kona hans var dóttir Stefáns Ólafssonar prests á Höskuldsstöðum, systir Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og hálfsystir Sigurðar Stefánssonar Hólabiskups. Hún var ekkja eftir Þórarin Jónsson sýslumann á Grund. Börn þeirra og stjúpbörn Jóns voru Stefán Þórarinsson amtmaður, Gísli prófastur í Odda, Vigfús sýslumaður á Hlíðarenda, Friðrik prestur á Breiðabólstað, Magnús klausturhaldari og Ragnheiður, sem giftist Jóni syni Skúla Magnússonar landfógeta.
Elstur barna Jóns og Sigríðar var Jón Espólín (f. 1769), þá Margrét, sem giftist Birni Stephensen, og Jakob, sem dó við nám í Kaupmannahöfn.
Jón átti líka launson sem hét Gísli Jónsson (1758–1829). Hann varð prestur í Noregi 1789, og er frá honum komin mikil ætt sem í dag notar ættarnafnið Johnson eða Espolin Johnson. Meðal þekktra manna af þeirri ætt var teiknarinn Kaare Espolin Johnson (1907–1994).
Heimildir
breyta- Jón Espólín og Gísli Konráðsson: Saga Jóns Espólíns hins fróða sýslumanns í Hegranesþingi. Kaupmannahöfn 1895.