Björg Thorarensen (f. 1966) er íslenskur lögfræðingur. Hún var um árabil prófessor í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands en frá 23. nóvember 2020 er hún hæstaréttardómari við Hæstarétt Íslands.[1]

Björg Thorarensen
Fædd24. september 1966
Reykjavík
StörfHæstaréttardómari áður prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands

Ferill

breyta

Björg fæddist í Reykjavík 24. september 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985,[2] embætttisprófi í lögfræði (cand. jur) frá Lagadeild Háskóla Íslands 1991[3] og meistaraprófi í lögum (LL.M) frá Edinborgarháskóla árið 1993 í stjórnskipunarrétti og alþjóðlegum mannréttindum og stjórnskipulagi Evrópusambandsins.[2][4]

Að loknu lagaprófi var Björg starfsmaður nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins sem undirbjó gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og annarrar löggjafar á sviði réttarfars 1. júlí 1992 frá 1991 til 1992. Hún var í starfsnámi hjá Mannréttindanefnd Evrópuráðsins í Strasbourg haustið 1993. Hún starfaði sem lögfræðingur á lagaskrifstofu ráðuneytisins frá 1994-1996, skrifstofustjóri á löggæslu- og dómsmálaskrifstofu frá 1996 -2001 og skrifstofustjóri á lagaskrifstofu ráðuneytisins 2002. Björg fékk útgefið leyfisbréf til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1997. Þá var hún umboðsmaður (agent) ríkisstjórnar Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu frá 1999 – 2005 og 2009-2011.[2][4]

Frá árinu 1994 -2002 var Björg stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands í alþjóðlegum mannréttindareglum og stjórnskipunarrétti. Hún var prófessor við Lagadeild HÍ í stjórnskipunarrétti, alþjóðlegum mannréttindareglum, þjóðarétti og persónuverndarrétti frá 2002-2020 og frá 2007-2010 var hún forseti Lagadeildar.[2][4]

Kennsla og rannsóknir Bjargar eru einkum á sviði stjórnskipunarréttar, Mannréttindasáttmála Evrópu, þjóðaréttar og persónuverndarréttar og hefur hún gefið út fjölmargar greinar, bókakafla og bækur á innlendum og á alþjóðlegum vettvangi um þau efni auk álitsgerða, skýrslna og vinnu við lagafrumvörp. Viðamestu rannsóknir hennar tengjast íslensku stjórnarskránni og stjórnskipun Norðurlandanna.

Björg hefur haldið fyrirlestra um efni á rannsóknarsviðum sínum á fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum ráðstefnum og málþingum. Þá er hún virkur opinber álitsgjafi í stjórnskipunar- og mannréttindamálefnum. Hún var gestafræðimaður við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn 2011 og 2014 og við Evrópustofnunina í Flórens (European University Institute) 2018.[2]

Ýmis störf og verkefni

breyta

Björg hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan og utan háskólans. Hún var formaður stjórnar Persónuverndar frá 2011-2020[5] og var formaður starfshóps dómsmálaráðherra til að undirbúa innleiðingu Persónuverndarreglugerðar ESB í íslenskan rétt 2017 og 2018.[6] Þá má nefna stjórnarformennsku í Háskólaútgáfunni frá 2016-2020[7] og Hafréttarstofnun Íslands frá 2017-2020[2] og hún var stjórnarformaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands frá 2004-2013.[8] Hún hefur setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags frá 2019.[9] Hún var kosin af Alþingi í stjórnlaganefnd fyrir árin 2010 og 2011.[10] Skipuð af utanríkisráðherra 4. nóvember 2009 til að vera annar tveggja varaformanna Samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið [11] Þá var hún formaður ráðgjafarhóps ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni 2009[12][13] og skipuð af forsætisráðherra í sérfræðinganefnd í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni, 2005-2007.[14] Hún sat í nefnd Evrópuráðsins um persónuvernd (T-PD). Á árunum 1995 til 2010 var Björg fulltrúi Íslands í ýmsum nefndum á vegum Evrópuráðsins í Strasbourg, einkum á sviði mannréttinda þar á meðal Sérfræðinganefnd um þróun mannréttinda (DH-DEV) og Sérfræðinganefnd um málsmeðferðarreglur í mannréttindamálum (DH-PR) þar sem hún var formaður árin 2009 og 2010. Þá var hún fulltrúi Íslands í Samninganefnd Evrópuráðsins og Evrópusambandsins um aðild ESB að Mannréttindasáttmála Evrópu 2010 og 2011.[2]

Björg vann einnig við blaða- og fréttamennsku á NT og dagblaðinu Tímanum 1985 og 1986, Dagblaðinu-Vísi 1986 og 1987 og fréttastofu Ríkisútvarpsins 1988-1991.[2]

Viðurkenningar

breyta

Björg var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands á nýársdag 2019 fyrir kennslu og rannsóknir á sviði lögfræði.[15]

Einkalíf

breyta

Foreldrar Bjargar eru Sigurlaug Bjarnadóttir framhaldsskólakennari og fyrrv. alþingismaður (f. 1926)[16] og Þorsteinn Thorarensen lögfræðingur og bókaútgefandi (1927-2006). Systkini hennar eru Ingunn, grunnskólakennari (f. 1955) og Björn, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður (f. 1962). Björg er gift Markúsi Sigurbjörnssyni fyrrv. hæstaréttardómara (f. 1954) og eiga þau þrjú börn.[17]

Heimildir

breyta
 1. Visir.is, „Ása og Björg skipaðar dómarar við Hæstarétt“ (skoðað 22. nóvember 2020)
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 „Björg Thorarensen“. Sótt 6. júní 2019.
 3. Lögfræðingatal 1736-1992. Iðunn, Reykjavík 1993.
 4. 4,0 4,1 4,2 „Heimasíða Bjargar Thorarensen“. Sótt 6. júní 2019.
 5. Persónuvernd. (e.d.). Starfsfólk og stjórn Persónuverndar. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.personuvernd.is/personuvernd/starfsfolk-og-stjorn//
 6. Viðskiptablaðið. (2017, 21. nóvember). ESB reglur gilda þó ekki í lögum. Hafin er vinna við innleiðingu persónuverndarlöggjafar ESB og mun Björg Thorarensen semja frumvarpið. Viðskiptablaðið. Sótt 6. júní 2019 af: http://www.vb.is/frettir/esb-reglur-gilda-tho-ekki-i-logum/142986/?q=d%C3%B3msm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0herra
 7. Háskólaútgáfan. (2019). Um Háskólaútgáfuna. Sótt 6. júní 2019 af: http://haskolautgafan.hi.is/um Geymt 7 júní 2019 í Wayback Machine
 8. Háskóli Íslands. Mannréttindastofnun. (2015). Starfsemi fyrri ára. Sótt 6. júní 2019 af: https://mhi.hi.is/starfsemi_fyrri_ara Geymt 7 júní 2019 í Wayback Machine
 9. Hið íslenska bókmenntafélag. (2019). Kosning forseta og varaforseta. Sótt 6. júní 2019 af: https://hib.is/2016/03/16/gamma-gerist-bakhjarl/
 10. Alþingi. (2010). Tilkynningar. Stjórnlaganefnd valdi Guðrúnu Pétursdóttur formann. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/tilkynningar/nr/1366
 11. Utanríkisráðuneytið (2013). Skýrsla um samningaviðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu.
 12. Alþingi. (2008). Frumvarp til stjórnskipunarlaga. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/altext/136/s/0648.html
 13. Vísir. (2019). Frumvarp lagt fram fljótlega. visir.is. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.visir.is/g/2009425595012/frumvarp-lagt-fram-fljotlega
 14. Sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. (2005). Skýringar við Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Forsætisráðuneytið. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/frettir/skyringar.pdf
 15. Forseti Íslands. Orðuhafaskrá. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.forseti.is/falkaordan/orduhafaskra/ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine
 16. Alþingi. (2015). Sigurlaug Bjarnadóttir. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=528
 17. Samtíðarmenn. Ritstj. Pétur Ástvaldsson. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2003.

Rannsóknir og helstu ritverk

breyta