Bjórstíll
Bjórstíll er hugtak sem er notað til að flokka bjór eftir ýmsum einkennum á borð við bruggunaraðferð, innihaldsefnum, bragði, lit, styrkleika og uppruna. Hugtakið er tiltölulega nýlegt og á rætur að rekja til tilrauna höfunda bóka um bjór til að flokka ólíkar gerðir. Hugmyndin varð almenn með útgáfu bókarinnar The World Guide to Beer (1977) eftir rithöfundinn Michael Jackson. Til eru mörg eldri dæmi um flokkun ólíkra tegunda bjórs, til dæmis greinarmunur á „litlum“ (veikum) og „stórum“ (sterkum) bjór, munur á óhumluðu öli og humluðum bjór (Holland á 15. öld), og munur á ljósöli og brúnöli (Bretland eftir 17. öld).
Helstu „ættir“ bjórs eru öl (yfirgerjaður bjór), lager (undirgerjaður bjór), villibjór (gerjaður með villigerjun) og bjór gerður með blandaðri aðferð. Dæmi um bjórtegundir sem gerðar eru með blandaðri aðferð eru ýmsir ávaxtabjórar og kryddbjórar, bandarískur gufubjór (undirgerjaður við hita), altbier og kölnarbjór (yfirgerjaðir en lageraðir í kulda). Til eru ýmsir gerjaðir drykkir sem líkjast bjór en teljast ekki formlega til bjórs þar sem engir humlar og/eða ekkert malt er notað við gerð þeirra. Dæmi um slíka drykki eru gruit, kvass, sahti og bosa.