Berserkir voru sérstök tegund stríðsmanna á forn norrænum tímum. Berserkir virðast hafa tileinkað sér sérstakan hátt í bardaga og tilheyrt heimullegum stríðs- og trúarreglum innan forn norænnar menningar.[1] Þeir dýrkuðu Óðinn í birtingarmynd hans sem guðs tortímingar, stríðs og dauða. Þeir tóku á sig ham og skap vargsins á vígvellinum, hvort um ræðir úlfa Óðins eða fylgjudýr þ.e. andleg máttardýr sem þeir sóttu kraft í, er óljóst. Þannig klæddu þeir sig í feld úlfa og bjarna og létu eins og óð villidýr í bardaga, gengu svokallaðan berserksgang.[2]

Berserkur eða Úlfhéðinn íkæddur vargsham fylgir hyrndum Óðni til bardaga. Myndin er eftirmynd af bronsplötu sem fannst í Eylandi í Svíþjóð.

Berserksgangur er svo að innblásnir af Óðni sem dauðanum sjálfum rennur á þá æðiskast (verða óðir) þar sem þeir drepa og tortíma öllu sem fyrir þeim verður, jafnvel eigin bandamönnum.[3] Margir berserkir voru víkingar, en ekki allir víkingar voru þó berserkir.

Í Ynglinga sögu segir af berserksganginum[4]:

Óðinn kunni svo gera, að í orustu urðu óvinir hans blindir eða daufir eða óttafullir en vopn þeirra bitu eigi heldur en vendir en hans menn fóru brynjulausir og voru galnir sem hundar eða vargar, bitu í skjöldu sína, voru sterkir sem birnir eða griðungar. Þeir drápu mannfólkið en hvorki eldur né járn orti á þá. Það er kallaður berserksgangur.

Talið er að berserkir hafi jafnvel neytt vímugefandi jurta og sveppa til að magna upp æði sitt í bardaga, þaðan dregur berserkjasveppurinn nafn sitt,[5] en aðeins hægt er að rekja heimildir um áætlaða notkun sveppsins til 17.aldar.

Berserkir koma víða við sögu í Íslendingasögum þar á meðal Grettis sögu, Heiðarvígasögu og Vatnsdæla sögu. Í Grettis sögu kallaði Haraldur hárfagri berserki sína úlfhéðna. Deilt er um hvort berserkir og úlfhéðnar séu það eitt og sama, eða hvort úlfhéðnar hafi verið sér bræðalag á meðal berserkja.[6]

Í Hrólfs sögu Kraka segir hvernig berserkurinn Böðvar Bjarki umbreytist í öskrandi björn á vígvellinum með hramma sem drepa á við fimm menn. Hann drepur bæði hesta og menn, og vopn virðast ekki bíta ekki á honum. Andstæðingarnir verða logandi hræddir við hann[7]:

Þat sjá þeir Hjörvarðr ok menn hans, at björn einn mikill ferr fyrir Hrólfs konungs mönnum ok jafnan þar næst, sem konungrinn var. Hann drepr fleiri menn með sínum hrammi en fimm aðrir kappar konungs. Hrjóta af honum högg ok skotvápn. en hann brýtr undir sik bæði menn ok hesta af liði Hjörvarðs konungs, ok allt þat, sem í nánd er, mylr hann með sínum tönnum, svá at illr kurr kemr í lið Hjörvarðs konungs.

Úlfhéðnar og berserkir, sem menn sem tóku á sig mynd dýra líkt og úlfa, hafa að öllum líkindum haft mikil áhrif á og verið innblásturinn fyrir þjóðsagnaverur á borð við varúlfa sem seinna náðu útbreiddum vinsældum í Evrópu.

Á Íslandi er enn talað um að „ganga berserksgang“ eða „fara hamförum“ (skipta um ham úr manni í dýr) þegar menn missa stjórn á skapi sínu og jafnvel brjóta allt og bramla í kringum sig.

Orðsifjar

breyta

Bæði orðin Berserkur og Úlfhéðinn koma úr fornnorrænu (Íslensku). Tvær nálganir eru á merkingu orðsins berserkur þ e ber- ‘björn’ og serkur, eiginl. ‘sá sem klæðist bjarnarfeldi’, sbr. úlfhéðnar ‘þeir sem klæðast úlfahúðum’. Aðrir telja að berserkur merki mann sem berst á serknum einum, af lo. ber og serkur þýðir „maður á berum serk“, þ.e. maður sem er lítt klæddur, og vísar þar til að berserkir börðust án brynju, jafnvel aðeins íklæddir bjarnarfeld.

Vinsæl dægurmenning

breyta

Heimildir

breyta
  1. Eliade, Mircea. 1964. Shamanism: Archaic Techniques of Ecstasy.
  2. Hultkrantz, Åke (1991). Vem är vem i nordisk mytologi : gestalter och äventyr i Eddans gudavärld. Stockholm: Rabén & Sjögren.
  3. Eliade, Mircea. 1964. Shamanism: Archaic Techniques of Ecstasy.
  4. Snorri Sturluson. „Ynglinga saga“.
  5. Fabing, Howard D. (1956). "On Going Berserk: A Neurochemical Inquiry". Scientific Monthly.
  6. Kershaw, Kris. (2000.). The One-eyed God: Odin and the (Indo-)Germanic Männerbünde.
  7. Óþekktur. „Hrólfs saga Kraka ok kappa hans“.