Benedikt Sveinsson (sýslumaður)

Benedikt Sveinsson (20. janúar 18262. ágúst 1899) fæddist í Sandfelli í Öræfum.

Ekki finnst lengur ministerialbók með skírn Benedikts, og sumir álíta hann fæddan sama dag árið 1827. Foreldrar hans voru séra Sveinn Benediktsson (1792-1849) og kona hans, Kristín Jónsdóttir (1794-1879). Benedikt ólst upp hjá foreldrum sínum á Mýrum í Álftaveri. Hann gekk í Reykjavíkurskóla 1846-1850 en var þá vikið úr skóla út af pereatinu. Hann gerðist þá um hríð kennari á Reynistað í Skagafirði en lauk stúdentsprófi utanskóla 1852. Á árunum 1852-1858 stundaði Benedikt laganám við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk góðu embættisprófi og gegndi síðan embætti dómara og dómsmálaritara í Landsyfirréttinum í Reykjavík á árunum 1859-1870. Þá var honum vikið frá embætti fyrir umdeildar sakir. Þessar ástæður eru nefndar:

  1. Að hann hefði eigi hlýðnazt skipun stiptamtsins að flytja bústað sinn frá Elliðavatni að Reykjavík í fardögum 1870
  2. Að hann ætti að hafa valdið ýmsri óreglu við yfirréttinn,svo sem með því, að hann hefði látið sig vanta í réttinum á tilteknum tímum, án þess að tilkynna forföll sín í tækan tíma, og að bókfærsla hans sem dómsskrifara í réttinum hefði ekki verið í réttu lagi.
  3. Að hann ætti að hafa með hegðun sinni utan réttarins rýrt mannorð sitt og traustið á sér sem dómara, og allt háttalag hans ætti að hafa komið í bága við hina ábyrgðarmiklu og mikilsvarðandi stöðu hans [1]

Benedikt bjó á Elliðavatni við Reykjavík á árunum 1860-1874. Þá fékk hann embætti sýslumanns í Þingeyjarsýslum, sem hann gegndi til 1897. Hann bjó nyrðra á Héðinshöfða á Tjörnesi. Eftir að hann lét af embætti, bjó hann í Reykjavík, fyrst í Skildinganesi og síðast á Vatnsenda.

Benedikt giftist 1859. Kona hans var Katrín Einarsdóttir (1840-1914). Þau skildu. Þessi börn þeirra komust upp: Ragnheiður á Akureyri, f. 1860, Einar skáld og sýslumaður, f. 1864, Kristín, f. 1867, og Ólafur Sveinar Haukur bóndi á Vatnsenda, f. 1872.

Benedikt átti sæti á Alþingi frá 1861 til dauðadags, samtals í 38 ár á 22 þingum. Á sjö þingum var hann forseti ýmist í neðri deild eða sameinuðu þingi. Hann lét mjög til sín taka sjálfstæðismál þjóðarinnar og fleiri umtöluð málefni og þótti um árabil einn helsti stjórnmálaleiðtogi landsins.

Ítarefni

breyta
  • Alþingi, æviágrip. Skoðað 4. september 2010.
  • Hannes Þorsteinsson í Andvara árið 1900 (liggur frammi á vefnum timarit.is).
  1. Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands - þriðja bindi (01.01.1875)