Pereat (stundum með viðskeyttum greini; Pereatið) er heiti á atviki, s.k. afhrópi, sem átti sér stað í Reykjavík 17. janúar 1850.

PereatiðBreyta

Skólasveinar Lærða skólans gerðu hróp að rektor skólans, Sveinbirni Egilssyni, skáldi. Upphaflega var um að ræða deilur um bindindi í skólanum, en Sveinbjörn Egilsson vildi þvinga pilta til þess að vera í bindindisfélagi. Eftir skammaræðu sem Sveinbjörn Egilsson hélt yfir þeim í hátíðasalnum Lærða Skólans, ákvaðu þeir að stökkva vestur á Mela undir forystu Arnljóts Ólafssonar. Þaðan fóru þeir að húsi rektors við Austurstræti og síðan við flest hús í bænum og hrópuðu: Pereat, sem er latína og útleggst „niður með hann“. Þetta fannst Sveinbirni óásættanlegt og vildi auðvitað láta reka þá, sem hann taldi sekasta, en stiftsyfirvöld vildu ekki leyfa honum það. Hann ákvað þá að sigla til Kaupmannahafnar og fékk skólayfirvöld þar til liðs við sig. Skólaárið var þá dæmt ógilt og engir brautskráðir um vorið árið 1850. Þessi atburður hafði mjög mikil áhrif á félagslífið í skólanum, enda var það drepið í dróma í hálfan annan áratug.

Einn forsprakka uppátækisins, Steingrímur Thorsteinsson, varð síðar rektor við Lærða skólann.

Norðurreið SkagfirðingaBreyta

Sveinbjörn Egilsson var engan veginn sá eini sem var afhrópaður í því andrúmslofti, sem ríkti í Evrópu eftir byltingaölduna sem gekk yfir álfuna 1848.

Í maí 1849 átti Norðurreið Skagfirðinga sér stað, en þá gerði hópur bænda frá Skagafirði aðsúg að Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum í Hörgárdal.

DómkirkjuhneyksliðBreyta

Grímur amtmaður var móðurbróðir Gríms Thomsen skálds og Guðrúnar Þorgrímsdóttur systur hans, sem var gift séra Ásmundi Jónssyni, sem var dómkirkjuprestur í Reykjavík 1850. Á sumardaginn fyrsta 1850 skrifaði Brynjólfur Pétursson í Kaupmannahöfn Grími Thomsen, sem var þá í utanríkisþjónustu Dana í Brüssel, bréf, sem fjallar bæði um pereatið og um uppákomu, sem varðaði séra Ásmund, mág Gríms. Hefur sú uppákoma verið kölluð Dómkirkjuhneykslið. [1] Bréfið er birt í bók Finns Sigmundssonar: Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum. Í skýringu Finns neðanmáls við bréfið segir:

 
10. febrúar 1850 gerðist sá atburður í Reykjavíkurdómkirkju að aflokinni prédikun Helga biskups, að ritstjóri Þjóðólfs, Sveinbjörn Hallgrímsson, kvaddi sér hljóðs og krafðist þess að tekin yrði til greina „ósk hinna mörgu í söfnuðinum, sem ég nú ber upp, að þeir megi svo fljótt, sem kringumstæður leyfa, fá annan prest og þann prest hvers orð og kenningar þeir geti heyrt sér til uppbyggingar, því ef lýðurinn heyrir ekki kenninguna, hvernig á hann þá að trúa henni eða verða hólpinn fyrir hana?“ Ávarp Sveinbjarnar við þetta tækifæri er prentað í Hljóðólfi 25. apríl 1850, en það blað gaf hann út í Kaupmannahöfn eftir að Landsprentsmiðjunni hafði verið bannað að prenta Þjóðólf. Mál þetta vakti mikla athygli og er oft á það minnst í bréfum frá þeim tíma.
 
 
— Finnur Sigmundsson (ritstj.), Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum. Hlaðbúð, Reykjavík 1947, bls. 181

Séra Ásmundur var áður prestur á Odda á Rangárvöllum en þegar hann varð dómkirkjuprestur tók bróðir hans séra Markús Jónsson við Odda. Ásmundur var áfram dómkirkjuprestur í nokkur ár eftir afhrópið en tók aftur við Odda 1854 eftir lát Markúsar og var þar til æviloka. [2] Kirkjan í Odda hefur verið minni en dómkirkjan og því væntanlega auðveldara fyrir söfnuðinn þar að heyra til prestsins og verða hólpinn fyrir prédikun hans.

Um orðið PereatBreyta

Pereat þýðir orðrétt: Farist (hann)! Það er viðtengingarháttur nútíðar af latneska sagnorðinu pĕrĕō. Þessi afhrópun er venjulega þýdd á íslensku sem Niður með hann. Enska sögnin perish á rætur sínar í þessu sama orði.

TilvísanirBreyta

  1. * Aðalgeir Kristjánsson (ritstj.); Hjalti Snær Ægisson (ritstj.) (2011). Ekkert nýtt, nema veröldin: Bréfaskipti Gríms Thomsens og Brynjólfs Pérturssonar. Smárit Sögufélags, Reykjavík. bls. 160. ISBN 978-9979-9902-4-6.
  2. Finnur Sigmundsson (ritstj.) (1946). Húsfreyjan á Bessastöðum: Bréf Ingibjargar Jónsdóttur til bróður síns Gríms amtmanns. Hlaðbúð, Reykjavík. bls. VIII.

TenglarBreyta

HeimildirBreyta

  • Heimir Þorleifsson (1973,75,77,83 og 86). Frá einveldi til Lýðveldis. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.