Beóþúkkar
Beóþúkkar (enska: Beothuk) voru frumbyggjar Norður-Ameríku sem bjuggu á Nýfundnalandi þegar Evrópubúar komu þar á 15. og 16. öld, og eru taldir vera sú ættkvísl indíana sem norrænir menn nefndu Skrælingja. Með dauða Shanawdithit árið 1829, sem talinn er síðasti lifandi indíáninn af kyni Beóþúkka, var ættkvísl þessi opinberlega talin útdauð.
Í Eiríks sögu rauða er því fólki sem fornmenn rákust á í Vesturheimi lýst þannig:
- Þeir voru smáir menn og illilegir og illt höfðu þeir hár á höfði. Eygðir voru þeir mjög og breiðir í kinnunum og dvöldust þeir um stund og undruðust, reru síðan í brott og suður fyrir nesið. [1]
Haraldur Bessason segir svo frá í bók sinni Bréfi til Brands:
- Hafi Vínland verið einhvers staðar við austurströnd Kanada eða Bandaríkjanna væri það að minnsta kosti brot gegn málvenju að halda því fram að þessi lýsing [Eiríks sögu rauða] hafi átt við ættkvísl eskimóa. Svo vel vill til að vísindamenn hafa leitt næstum óyggjandi líkur að því að hér hafi verið á ferðinni sú grein indíána sem Beóþúkkar voru nefndir. [2]