Atli Vilhelm Harðarson (fæddur 6. janúar 1960 í Biskupstungum á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og háskólakennari.

Íslensk heimspeki
Heimspeki 20. aldar,
Heimspeki 21. aldar
Nafn: Atli Harðarson
Fædd/ur: 6. janúar 1960 (1960-01-06) (64 ára)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: Afarkostir, Vafamál, Af jarðlegum skilningi, Í sátt við óvissuna, Tvímælis
Helstu viðfangsefni: frumspeki, verufræði, þekkingarfræði, siðfræði, stjórnspeki, rökfræði, heimspeki menntunar
Áhrifavaldar: Locke, Hume, Dewey, Aristóteles, Spinoza, Hegel

Atli kenndi við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá 1986 til 1996 og frá 1998 til 2011. Hann kenndi við Menntaskólann að Laugarvatni árin 1996 til 1998. Árið 2001 varð hann aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands og skólameistari sama skóla 2011. Frá haustinu 2014 hefur Atli kennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur einnig fengist við rit- og fræðastörf, skrifað bækur og birt greinar um heimspeki, bókmenntir og tölvunarfræði og þýtt ljóð og heimspekirit.

Menntun

breyta

Atli gekk í Barnaskóla Biskupstungna og lauk námi þaðan árið 1974. Hann lauk landsprófi árið 1975 frá Skálholtsskóla og nam eftir það við Menntaskólann að Laugarvatni þaðan sem hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild árið 1979. Að stúdentsprófi loknu hélt hann til Reykjavíkur í háskólanám. Hann nam heimspeki við Háskóla Íslands og lauk B.A.-gráðu í heimspeki og bókmenntum árið 1982. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna. Atli hlaut M.A.-gráðu í heimspeki frá Brown University í Providence á Rhode Island árið 1984. Árið 2013 lauk hann doktorsprófi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en doktorsritgerð hans nefnist In what sense and to what extent can organised school education be an aims-based enterprise?[1] Hann hefur einnig lokið námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands.

Heimspeki

breyta

Fram til 2010 snerust heimspekileg skrif Atla einkum um stjórnspeki, þekkingarfræði og frumspeki auk sögu heimspekinnar. Eftir það hefur hann einkum fjallað um heimspeki menntunar.

Í bókinni Af jarðlegum skilningi frá árinu 2001 heldur Atli fram veraldarhyggju í anda skoska heimspekingsins Davids Hume, sem þó er færð í nútímahorf með hliðsjón af líffræði og tölvufræði samtímans. Í þekkingarfræði hefur efahyggja verið Atla hugleikin umfram önnur efni. Í bókinni Í sátt við óvissuna frá árinu 2009 rökstyður hann að ómögulegt sé að hrekja heimspekilega efahyggju.

Nýjasta bók Atla, Tvímælis frá árinu 2019, er tilraun til að beita aðferðum stjórnmálaheimspeki til að skilja skólakerfi nútímans.

Helstu ritverk

breyta

Heimild

breyta
  • „Vefsíða Atla Harðarsonar“. Sótt 25. júlí 2020.

Tenglar

breyta
  1. Háskóli Íslands. „Doktorsvörn Atla Vilhelms Harðarsonar“. Sótt 20. mars 2014.