Arthur Drewry
Arthur Drewry (3. mars 1891 – 25. mars 1961) var enskur knattspyrnufrömuður og fisksali. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Enska knattspyrnusambandið og æskufélag sitt Grimsby Town.
Arthur Drewry | |
---|---|
Fæddur | 3. mars 1891 |
Dáinn | 25. mars 1961 (70 ára) |
Þjóðerni | Enskur |
Störf | Íþróttaforkólfur |
Þekktur fyrir | að vera forseti FIFA |
Ferill og störf
breytaDrewry fæddist í Grimsby og gekk þar í skóla. Hann gekk í herinn og þjónaði í Palestínu í fyrri heimsstyrjöldinni. Að stríði loknu hélt hann aftur til heimaborgarinnar þar sem hann kvæntist dóttur umfangsmikils fisksala. Hann tók við rekstri fyrirtækisins og stýrði því allt til ársins 1953 þegar hann dró sig í hlé.
Tengdafaðir Drewry var jafnframt stjórnarformaður knattspyrnufélagsins Grimsby Town og fól hann tengdasyninum stjórn félagsins. Drewry varð síðar stjórnarformaður Grimsby og var sem slíkur kjörinn formaður ensku deildarkeppninnar frá 1949 til 1955. Frá 1955 til 1961 var hann svo forseti Enska knattspyrnusambandsins.
Drewry átti hlut að máli í óvæntustu úrslitum í sögu HM í knattspyrnu, í Brasilíu 1950 þegar England tapaði fyrir Bandaríkjunum. Um þær mundir var liðsuppstillingin ekki í höndum lnadsliðsþjálfarans heldur nefndar á vegum knattspyrnusambandsins. Drewry, sem formaður nefndarinnar, krafðist þess að England stillti upp óbreyttu liði frá fyrri leik og að Stanley Matthews yrði utan liðs, í trássi við óskir þjálfarans. Ósigurinn var mikið áfall fyrir Drewry, sem hafði ásamt Stanley Rous átt einna stærstan þátt í að koma bresku knattspyrnusamböndunum inn í FIFA á nýjan leik og sannfæra samlanda sína um ágæti þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu.
Þegar Rodolphe Seeldrayers frá Belgíu féll frá árið 1955 kom í hlut Drewry, sem varaforseta sambandsins, að taka við forsetaembætti FIFA. Hann var svo formlega kjörinn á FIFA-þinginu 1956 eftir baráttu við M. Larfarge frá Frakklandi. Hann gegndi embættinu til dauðadags fimm árum síðar. Á þeim tíma sá hann m.a. um skipulagningu HM 1958 í Svíþjóð og í hans valdatíð var ákveðið að HM 1966 yrði haldið í heimalandi hans, Englandi.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Arthur Drewry“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. júlí 2022.