Arnór Þórðarson jarlaskáld

(Endurbeint frá Arnór Þórðarson)

Arnór Þórðarson (f. um 1012, lifði fram yfir 1073) var íslenskt hirðskáld. Hann var sonur Þórðar Kolbeinssonar og Oddnýjar eykyndils. Hans er getið í Bjarnar sögu Hítdælakappa, í Grettis sögu og í konungasögum. Viðurnefni sitt fékk hann af því að yrkja um Rögnvald og Þorfinn Orkneyjajarla. Hann orti einnig um Noregskonungana Magnús góða og Harald harðráða. Frægasta kvæði Arnórs er Hrynhenda sem ort er um Magnús konung undir hrynhendum hætti og er það fyrsta hirðkvæði sem vitað er um undir þeim bragarhætti. Um Hrynhendu segir Vésteinn Ólason að hún sé „full af fljúgandi mælsku og með glæsibrag í hvívetna.“[1] Finnur Jónsson segir um Arnór að hann hafi haft „ótakmarkað vald ... á öllu er að kveðandi lýtur og máli“ og jafnframt að „hann sparir ekki voldug orð og íburðarmiklar lýsíngar, t. d. á því hvernig hinn gullbúni skipafloti glói og glitri í sólskininu“[2] og tekur sem dæmi vísu úr Hrynhendu:

Hlunna es, sem röðull renni,
reiðar búningr, upp í heiði
(hrósak því es herskip glæsir
hlenna dolgr) eða vitar brenni.
Mönnum lízk, es mildingr rennir
Meita hlíðir sævar skíði,
unnir jafnt sem ofsamt renni
engla fylki himna þengils.

Tilvísanir

breyta
  1. Vésteinn Ólason 2006:223
  2. Finnur Jónsson 1904–1905:144.

Heimildir

breyta
  • Finnur Jónsson. 1904–1905. Bókmentasaga Íslendínga fram undir siðabót. Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmentafjelag.
  • Vésteinn Ólason. „Dróttkvæði“. 2006. Íslensk bókmenntasaga I, bls. 189–262. 2. útgáfa. Mál og menning.