Anna Bretaprinsessa
Anna, konunglega prinsessan (f. 15. ágúst 1950) er annað barn og eina dóttir Elísabetar 2. Bretadrottningar og Filippusar prins, hertogans af Edinborg.[1] Hún er sú 17. í erfðaröðinni að bresku krúnunni og hefur borið titilinn konungleg prinsessa frá árinu 1987.[2]
Anna prinsessa | |
---|---|
Fædd | Anne Elizabeth Alice Louise Mountbatten-Windsor 15. ágúst 1950 |
Þjóðerni | Bresk |
Störf | Aðalskona |
Trú | Enska biskupakirkjan |
Maki | Mark Phillips (g. 1973; sk. 1992) Timothy Laurence (g. 1992) |
Börn | 2 |
Foreldrar | Elísabet 2. & Filippus prins |
Anna fæddist í Clarence-húsi í London, gekk í Benenden-skóla og hóf störf í þágu krúnunnar á fullorðinsaldri. Hún varð kunn hestakona og vann ein gullverðlaun í Evrópumeistarakeppinni árið 1971 og tvenn silfurverðlaun árið 1975.[3] Árið 1976 varð hún fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar til að keppa á Ólympíuleikum.
Konunglega prinsessan gegnir opinberum skyldum í þágu drottningarinnar.[4] Hún er verndari rúmlega 300 félagasamtaka.[4] Líknarstörf hennar snúast um íþróttir, vísindi, fólk með fötlun og heilbrigðismál í þróunarlöndum. Anna hefur starfað í tengslum við Barnaheill í rúm 50 ár og var tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels árið 1990 fyrir störf sín með samtökunum.[5]
Árið 1973 giftist Anna höfuðsmanninum Mark Phillips en þau slitu samvist árið 1989 og hlutu lögskilnað árið 1992. Hjónin eignuðust tvö börn, Zöru og Peter Phillips, og fimm barnabörn. Aðeins fáum mánuðum eftir skilnaðinn giftist Anna yfirforingjanum (nú varaflotaforingjanum) Sir Timothy Laurence, sem hún hafði kynnst á meðan hann var hesthússtjóri móður hennar frá 1986 til 1989.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Anna prinsessa kjaftaskurinn í bresku konungsfjölskyldunni“. Tíminn. 22. júní 1986.
- ↑ „Princess Anne's colourful royal career“. BBC. 21. nóvember 2002. Afrit af uppruna á 13. febrúar 2008. Sótt 11. nóvember 2017.
- ↑ „Senior European Championship Results“. British Eventing Governing Body. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. desember 2012. Sótt 15. september 2012.
- ↑ 4,0 4,1 „The Princess Royal“. The Royal Family.
- ↑ „Our Patron Princess Anne“. Save the Children UK. Afrit af uppruna á 15. mars 2018. Sótt 14. mars 2018.