Dýrabær

(Endurbeint frá Animal Farm)

Dýrabær (enska: Animal Farm) er skáldsaga eftir George Orwell og ein frægasta háðsádeilan sem lýsir sovéskum alræðistilburðum. Orwell byggði bókina á atburðum sem áttu sér stað fram að og á meðan einræði Jósef Stalíns stóð. Orwell, demókratískur sósíalisti og meðlimur í Sjálfstæða Verkalýðsflokknum í mörg ár, gagnrýndi Stalín og hafði efasemdir um gagn stalínisma eftir upplifanir sínar í spænsku borgarastyrjöldinni.

Dýrabær
Forsíða fyrstu útgáfu bókarinnar.
HöfundurGeorge Orwell
Upprunalegur titillAnimal Farm
ÞýðandiJón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi
LandBretland
TungumálEnska
ÚtgefandiSecker and Warburg
Útgáfudagur
17. ágúst 1945; fyrir 79 árum (1945-08-17)

Bókin var valin ein af 100 bestu ensku skáldsögunum á tímabilinu 1923 til dagsins í dag af tímaritinu TIME Magazine.

Söguþráður

breyta

Söguþráðurinn flokkast undir allegóríu, þar sem svínin leika hlutverk uppreisnarsinnaðra Bolsévika og steypa mannverunum á bænum af stóli og setja upp samfélag þar sem öll dýrin eru jöfn, allavega í fyrstu.

Major, gamli gölturinn á búgarðinum Miklabæ kallar hin dýrin á bænum á sinn fund, þar sem hann líkir mannverunum við sníkjudýr, og tekur svo upp á því að kenna dýrunum uppreisnarsönginn „Skepnur Englands.“ Þegar Major deyr svo þrem dögum seinna taka tveir ungir geltir - Snækollur og Napóleon - völdin og breyta draumi hans í veruleika. Dýrin á bænum gera uppreisn og reka hjónin sem eiga bæinn á brott og skýra hann Dýrabæ. Sjö boðorð dýrahyggjunar eru svo rituð á hlöðuvegginn þar sem allir geta lesið þau. Mikilvægasta boðorðið er „öll dýr eru jöfn.“

Þessi pólitíska dæmisaga verður ekki einungis að ævintýri í höndum Orwells, heldur á endanum að harmleik um draum og veruleika.

Möguleg rittengsl

breyta

Pólski rithöfundurinn Wladyslaw Reymont, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1925 ritaði skömmu fyrir andlátið skáldsöguna Uppreisn (pólska: Bunt), sem er augljós vísun í rússnesku byltinguna þar sem dýr á sveitabæ gera byltingu sem endar með harðræði og ofbeldi. Líkindin með sögunum eru talsverð en ekki er vitað til þess að Orwell hafi þekkt til pólsku skáldsögunnar, sem ekki hafði verið þýdd yfir á vestur-evrópsk tungumál.

   Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.