Alí ibn Abu Talib
(Endurbeint frá Ali ibn Abi Talib)
Alí ibn Abu Talib eða ‘Alī ibn Abī Ṭālib (arabíska: علي بن أﺑﻲ طالب, persneska: علی پسر ابو طالب; 599–661) var einn fyrstu leiðtoga íslams. Súnnímúslimar trúa því að hann hafi verið sá fjórði og síðasti hinna fjögurra Réttleiddu Kalífa en sjítar að hann hafi verið fyrsti imaminn og fyrsti lögmæti kalífinn. Hann var frændi Múhameðs og eftir að hann giftist Fatima Zahra varð hann einnig tengdasonur hans. Sjítar, og sumir súnníar, halda því fram að Alí hafi verið fyrsti karlmaðurinn sem snerist til íslams. Sumir sjítar vilja þó meina að rangt sé að segja að Alí hafi verið snúið til íslam, heldur hafi hann verið það sem kallast hanif, það er einhver sem aðhylltist eingyðistrú (aðra en kristni eða gyðingdóm) fyrir tíma íslams.