Alþýðuleikhúsið

Alþýðuleikhúsið var íslenskur leikhópur sem skilgreindi sig sem „gagnrýnið, framsækið leikhús“, en þau vildu fjalla um borgaralegan samtíðarveruleikann á listrænan hátt og vekja umræðu um þjóðfélagsmál[1]. Þau vöktu þó ekki síður athygli fyrir óvenju leikræna framsetningu, kröftuga og agaða stílfærslu, en félagslegan boðskap.[2]

Alþýðuleikhúsið stofnað

breyta

Alþýðuleikhúsið var stofnað á Akureyri 4. júlí 1975. Leikararnir Þórhildur Þorleifsdóttir, Arnar Jónsson og Þráinn Karlsson höfðu sagt upp stöðum sínum við Leikhúsið á Akureyri og voru kjarninn í þeim hóp sem stóð að stofnun leikhússins, en einnig má nefna Þráinn Bertelsson, Böðvar Guðmundsson, Kristínu Á Ólafsdóttur og Jón Hlöðver Áskelsson. Markmið leikhússins var að flytja leiklistarunnendum um allt land með einhverjum hætti efni sem vekti þau til umhugsunar og hvetja til umræðu um þjóðfélagsmál.[3] Skipulag leikhússins var nýstárlegt og var grunnhugmyndin sú að sjálfstæðir hópar gætu myndast innan þess, eftir áhugamálum félaganna, og sótt fjármagn í sameiginlegan sjóð. Ákvarðanir voru teknar á aðalfundum og varð stjórn að hlíta ákvörðunum þeirra.

Starfsemi

breyta

Alþýðuleikhúsið frumsýndi fyrstu sýningu sína, Krummagull eftir Böðvar Guðmundsson á Neskaupstað 28. mars 1976. Síðan var lagt af stað í leikför um landið og sýnt alls 62 sinnum á 44 stöðum. Leikritið var tekið upp fyrir sjónvarp í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi, þar sem einn af stofnendum leikhússins, Þráinn Bertelsson, var við nám í kvikmyndaleikstjórn. Haustið 1976 var Skollaleikur Böðvars Guðmundssonar frumsýndur á Borgarfirði eystra og síðan á ýmsum stöðum á landinu. Haustið 1977 var farið með hann í leikför til Skandinavíu. Alls urðu sýningar á leiknum um hundrað og var hann síðast tekinn upp í sjónvarpi vorið 1978. Leikstjóri beggja sýninganna var Þórhildur Þorleifsdóttir.

Fyrstu árin var mest sýnt í Lindarbæ, en árið 1981 fékk leikhúsið inni í Hafnarbíói, sem stóð neðst við Barónsstíg, en þau sýndu einnig á Kjarvalsstöðum, í Þýska bókasafninu, Ásmundarsal, Hlaðvarpanum, Gamla bíói, Iðnó, Tjarnarbíói, Hafnarhúsinu og víðar.

Tilvísanir

breyta
  1. Stéttabaráttan (nóvember 1975). „Alþýðuleikhúsið viðtal við Böðvar Guðmundsson“. Stéttabaráttan. Sótt apríl 2021.
  2. Leikminjasafn Íslands (mars 2020). „Alþýðuleikhúsið stofnað“. Leikminjasafn Íslands. Sótt apríl 2021.
  3. Ólafur Jónsson (nóvember 1976). „Af hverju ekki séra Jón“. Dagblaðið. Sótt apríl 2021.