Aage Lauritz Petersen

Aage Lauritz Petersen (14. desember 18792. mars 1959) var danskur verkfræðingur, símstöðvarstjóri í Vestmannaeyjum og lengst af fulltrúi á Skattstofunni í Reykjavík.

Ævi og starfsferillBreyta

Aage Lauritz Petersen var sonur dansks málafærslumanns, August Ferdinand Petersen og konu hans Alvilda Laurine Petersen.[1] Í Kaupmannahöfn kynntist hann íslenskri stúlku, Guðbjörgu Jónínu Gísladóttur. Þau eignuðust saman dóttur árið 1902, fluttust árið eftir til Vestmannaeyja og gengu þar í hjónaband.[2]

Við komuna til Íslands var Petersen sagður verkfræðingur og notaði hann þann titil alla tíð. Engin sérstök ástæða er til að draga þann menntunartitil í efa, en notkun verkfræðingsheitisins var þó stundum lausari í reipunum í byrjun tuttugustu aldar en síðar varð. Petersen varð t.d. ekki félagi í Verkfræðingafélagi Íslands, en slíkt var raunar ekki óalgengt fyrir menn sem horfið höfðu til annarra starfa en heyrðu beinlínis til verkfræði. Í grein í Tímariti Verkfræðingafélagsins árið 1946 um hafnarframkvæmdir í Vestmannaeyjum, þar sem Petersen kom nokkuð við sögu, er komist svo að orði að hann „hafi um tíma stundað verkfræðinám“.[3]

Í ársbyrjun 1905 var fyrsta heilbrigðissamþykktin sett í Reykjavík og þar með stofnað embætti heilbrigðisfulltrúa. Petersen var ráðinn til starfsins og bar fyrstur manna þann titil hér á landi. Snerust störf hans að miklu leyti um skólp- og fráveitumál sem voru í miklum ólestri í bænum á þeim tíma. Petersen var jafnframt ráðinn til að vinna nákvæman uppdrátt að bæjarlandinu en um mitt ár 1908 sagði hann sig frá því verki.[4] Um svipað leyti fluttust Petersen og Guðbjörg aftur til Vestmannaeyja. Þar létu þau til sín taka og voru í hópi stofnenda Leikfélags Vestmannaeyja árið 1910, þar sem Petersen var formaður.[5] Þau slitu samvistum árið 1915 og áttu þá fjögur börn.

Vestmannaeyjar komust í símsamband við fastalandið sumarið 1911. Um leið var reist símstöð í Vestmannaeyjum og var Petersen gerður að stjórnanda hennar. Árið 1915 eignuðust Eyjamenn sína fyrstu rafveitu og sinnt Petersen stjórn hennar meðan á dvölinni í Vestmannaeyjum stóð. Hann kvæntist á nýjan leik árið 1917, Guðnýju Magnúsdóttur úr Reykjavík, sem komið hafði til Vestmannaeyja sem símstöðvarstúlka eða símþjónn, eins og það var kallað. Þau eignuðust alls fjögur börn.[6]

Árið 1919 fluttust Petersen og Guðný til Reykjavíkur. Hann var ráðinn til starfa á Skattstofunni og var í fyrstu eini starfsmaður hennar auk Skattstofustjóra. Þar vann hann út starfsævina. Aage Lauritz Petersen fékk íslenskan ríkisborgararétt og náði fullkomnu valdi á tungumálinu, svo mjög að hann tókst á við að smíða íslensk orð yfir ýmis hugtök tengd störfum hans að skattamálum.[7] Hann lést árið 1959.

TilvísanirBreyta

  1. „Heimaslóð, Aage Lauritz Petersen.
  2. „Heimaslóð, Guðbjörg Gísladóttir (Hlíðarhúsi).
  3. „Tímarit Verkfræðingafélags Íslands, 4. tbl. 1946“.
  4. „Lögrétta 11. júní 1908“.
  5. „Heimaslóð Leikfélags Vestmannaeyja.
  6. „Heimaslóð Guðný Magnúsdóttir (Miðstöð).
  7. „Alþýðublaðið, 14. desember 1954“.