Aðalstöðin
íslensk útvarpsstöð (1989-1998)
Aðalstöðin var útvarpsstöð sem Ólafur Laufdal stofnaði. Stöðin hóf útsendingar á FM 90,9 19. október árið 1989 en tók formlega til starfa 22. október. Fyrsti útvarpsstjóri stöðvarinnar var Bjarni Dagur Jónsson. Stöðin var til húsa í Aðalstræti 16 í miðborg Reykjavíkur. Aðalstöðin átti að vera talútvarp með áherslu á viðtals- og spjallþætti. Meðal þáttagerðafólks voru Inger Anna Aikman, Jón Ólafsson og Bjarni Arason. Gamanþættir Steins Ármanns Magnússonar og Davíðs Þórs Jónssonar, Radíus, voru sendir út af stöðinni árið 1992 og þættir Páls Óskars Hjálmtýssonar, Sætt og sóðalegt, frá 1992 til 1993.
Um mitt ár 1998 var stöðinni breytt í útvarpsstöðina Gull sem var fyrst og fremst tónlistarstöð.