Þorkell Ólafsson (stiftprófastur)

Þorkell Ólafsson (1. ágúst 1738 - 29. janúar 1820) var íslenskur prestur og stiftprófastur.

Þorkell fæddist að Odda á Rangárvöllum. Foreldrar hans voru Ólafur Gíslason, þá prófastur í Rangárþingi, síðar biskup í Skálholti, og kona hans Margrét Jakobsdóttir. Árið 1747 flutti fjölskyldan að Skálholti þegar Ólafur Gíslason tók við biskupsembættinu. Ólafur Gíslason biskup lést árið 1753 og árið eftir, 1754, flutti Þorkell ásamt móður sinni til Bræðratungu.[1][2] Frú Margrét biskupsekkja lenti í erfiðleikum með að gera upp fjármál biskupsstólsins að manni hennar látnum. Eftir að hún andaðist 1755 var gengið að eignum hennar og sona hennar til lúkningar skuldum. Þorkell stundaði nám við Skálholtsskóla á þessum tíma. Lærdómskver hans voru tekin af honum upp í skuld foreldra hans, svo hann varð að sæta lagi að lesa á kver skólafélaga sinna. Einnig voru silfurhnappar skornir úr peysu hans og teknir af honum. Séra Högni Sigurðsson, prestur á Breiðabólstað, tók Þorkel að sér þegar móðir hans lést. Guðríður Gísladóttir, kona Finns biskups Jónssonar, sá um að Þorkell fékk „ölmusu“ eða framfærslu við Skálholtsskóla þar til hann útskrifaðist 1757. Við útskriftina 1757 varð Þorkell Ólafsson efstur meðal samstúdenta sinna.[2] Hann var skipaður djákni í Þykkvabæjarklaustri í Veri sama ár en vegna ágreinings lét hann af því starfi og gerðist skrifari Finns biskups Jónssonar 1758-1761, er hann sigldi til Danmerkur og settist í Kaupmannahafnarháskóla.[2] Þorkell Ólafsson útskrifaðist Cand. theol 28. mars 1764. Gerðist hann þá aftur um tíma skrifari hjá Finni biskupi í Skálholti, Hvalsnesprestakall fékk hann 1766, var skipaður dómkirkjuprestur á Hólum 1769 og tók við því embætti 1770. Prófastur í Hegranesþingi 1786, stiftprófastur í Hólastifti 1787 til 1789 og 1798-1802 og gegndi þá um tíma biskupsemætti sem staðgengill. Hann fékk lausn frá prófastsembættinu 1805 og frá prestsembætti 1816, þótt hann sinnti starfinu til 1817.

Kona séra Þorkells var Ingigerður Sveinsdóttir, gift 1774. Hún lést 1775. Barn þeirra, f. 9. september 1775, var Sölvi, sem seinna varð prestur á Hjaltastöðum. Séra Þorkell giftist ekki aftur og átti ekki fleiri afkomendur.[3] Eins og kunnugt er var Hólastóll lagður niður 1802 og flestar eignirnar seldar. Þá missti séra Þorkell að mestu þær tekjur sem hann hafði haft, svokallaða kostpeninga. Lifði hann þó áfram á Hólum í skjóli ábúenda jarðarinnar um langa hríð við mikla fátækt. Ekki fékk hann eftirlaun nema síðustu fjögur árin sem hann lifði.[4]

Þorkeli Ólafssyni er svo lýst að hann hafi verið mikill söngmaður með fagra og mikla rödd. „Hann var maður tígulegur ásýndum, með hærri og þreklegri mönnum á vöxt, kurteis, blíður og glaðsinna í umgengi, rammur að afli.“[5] Þorkell Ólafsson andaðist 29. janúar 1820. Þá hafði hann verið á Hólum í full fimmtíu ár, dómkirkjuprestur í 47 ár, prófastur Skagafjarðarsýslu í fimmtán ár og tvisvar stiftprófastur. Tvö prentuð rit komu út eftir séra Þorkel: Hið fyrra er Ævisaga Jóns Teitssonar biskups, prentuð á Hólum 1782. Hið síðara er Ævisaga Sigurðar biskups Stefánssonar, prentuð á Hólum 1799. Einnig liggur eftir hann ræðusafn, sendibréf, uppskrifuð kvæði o.fl.[6] Þeir sem hafa ritað um séra Þorkel, Jón Konráðsson (1821) og Kolbeinn Kristinsson (1970) hafa bent á einstakt þolgæði hans og æðruleysi í áföllum lífsins. Þessir höfundar hafa líka bent á að séra Þorkell var snauður af veraldlegum gæðum þessa heims alla tíð, en þeim mun ríkari í anda og trú.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. „Stutt ágrip um Þorkells Ólafssonar, stiftprófasts í Hólastifti, margbreyttu og eftirminnilegu lífs-tilfelli,“.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Þáttur Þorkells Ólafssonar stiftprófasts á Hólum“.
  3. Bjarni Jónsson frá Unnarholti. Íslenskir Hafnarstúdentar (1949).
  4. „Þáttur Þorkells stiftprófasts á Hólum“.
  5. „Stutt ágrip um Þorkells Ólafssonar, stiftprófasts í Hólastifti, margbreyttu og eftirminnilegu lífs-tilfelli“.
  6. „Þáttur Þorkells Ólafssonar stiftprófasts á Hólum“.