Þórir Haraldsson (d. 1323) var ábóti í Munkaþverárklaustri, vígður 1298 og tók við af Ljóti Hallssyni. Hann átti í deilum við Lárentíus Kálfsson Hólabiskup og einnig Auðun rauða, sem setti hann úr embætti árið 1317.

Tilefni deilna þeirra Lárentíusar og Þóris ábóta var að Solveig Loftsdóttir húsfreyja í Lönguhlíð (Skriðu) í Hörgárdal, systir Þorláks Loftssonar ábóta í Þykkvabæjarklaustri og bróðurdóttir Árna Helgasonar biskups og Agöthu abbadísar í Kirkjubæjarklaustri, drukknaði í Hörgá árið 1307. Hana hefði átt að grafa á Bægisá en maður hennar, Þorvaldur Geirsson, vildi að hún fengi legstað á Munkaþverá, og gaf klaustrinu mikið fé til að svo mætti vera. Hann var vel stæður, sonur Geirs auðga Þorvaldssonar á Silfrastöðum en Guðmundur dýri Þorvaldsson var langafi hans.

Hildibrandur Jónsson prestur á Bægisá kærði þetta til Lárentíusar, sem þá var hér vísitator erkibiskupsins í Niðarósi ásamt munkinum Birni, og gaf hann út bréf þess efnis að Solveigu skyldi jarða á Bægisá og bannaði messusöng í klausturkirkjunni á Þverá meðan ekki væri farið að boði hans. Þórir ábóti, Jörundur Hólabiskup og fleiri fengu þá bróður Björn til að gefa út annað bréf sem gekk þvert á bréf Lárentíusar og heimilaði að Solveig væri grafin á Munkaþverá. Þegar Lárentíus kom í Munkaþverá með fylgdarmönnum og ætlaði að koma sínu fram gripu Þórir ábóti og hans menn bréfið sem Lárentíus hafði gefið út, rifu það og brutu innsigli og vörpuðu svo Lárentíusi og mönnum hans út úr kirkjunni og kirkjugarðinum. Bendir þetta ekki til þess að Þóri hafi verið sýnt um að láta að stjórn yfirboðara sinna.

Árið 1312, þegar Lárentíus var fallinn í ónáð Jörundar Hólabiskups, sendi Þórir þó eftir honum og bauð honum að koma til sín og kenna í klaustrinu. Lárentíus þáði það og kenndi í eitt ár á Munkaþverá og er sagt að „margir tóku mikinn þrifnað af hans læring“. Einn af nemendum hans þar var Bergur Sokkason, fræðimaður og síðar ábóti á Munkaþverá. Þeir Lárentíus urðu miklir vinir og vígðust saman í Þingeyraklaustur 1316 ásamt Árna syni Lárentíusar.

Samkvæmt annálum var Brandur nokkur vígður ábóti á Munkaþverá 1310 en Þórir var þó áfram ábóti eftir það. Auðunn rauði Þorbergsson Hólabiskup setti hann úr embætti 1317. Hann ætlaði til Noregs 1318 en skipið brotnaði í hafís við Austfirði en menn björguðust. Þórir fór svo utan 1321 og er talið að hann hafi dáið í Noregi 1323. Ef til vill hefur Brandur sá sem áður er nefndur gegnt ábótastarfi fyrst eftir að Þórir vék þaðan en Bergur Sokkason var príor frá 1322 og ábóti frá 1325.

Heimildir breyta

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.