Öndverðareyri, Hallbjarnareyri eða bara Eyri er eyðibýli í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, landnámsjörð og gamalt höfuðból. Bærinn stóð undir Eyrarfjalli og kallaðist hann og bæirnir umhverfis hann Eyrarpláss.

Landnámsmaðurinn Vestar Þórólfsson, sonur Þórólfs blöðruskalla, nam Eyrarlönd og Kirkjufjörð og bjó á Öndverðareyri að sögn Landnámabókar. Ásgeir sonur hans bjó síðan á Eyri og svo afkomendur hans fram á 12. öld. Sonarsonur Ásgeirs var Steinþór Þorláksson á Eyri, ein helsta sögupersóna Eyrbyggja sögu. Tengdadóttir hans var Þuríður spaka, yngsta dóttir Snorra goða, sem bjó lengi á Eyri með manni sínum og dó þar árið 1112. Hún var einn helsti heimildarmaður Ara fróða sem sagði að hún hefði verið „margspök og óljúgfróð“.

Jörðin komst síðar í eigu Sturlunga og Þórður Sturluson bjó þar um tíma og Sturla Þórðarson sagnaritari í fáein ár og síðan Böðvar bróðir hans um tíma. Staðurinn kom lítið við sögu næstu aldir en árið 1496 var Páll Jónsson, sýslumaður á Skarði, drepinn þar af Eiríki Halldórssyni. Þeir voru svarnir óvinir og höfðu átt í deilum. Páll var á ferð um sveitina og gisti á Öndverðareyri. Eiríkur frétti af því en hann var þá staddur á Helgafelli þar sem faðir hans, Halldór Ormsson, var ábóti. Fór hann þegar að Öndverðareyri með hóp manna og drap Pál. Þetta var talið níðingsverk og var Eiríkur dæmdur útlægur. Hann fór þá í pílagrímsferð til Rómar og dó í þeirri ferð.

Kirkja var á Öndverðareyri í kaþólskum sið. Hallbjörn Jónsson varð prestur þar árið 1500 og í tíð hans var bærinn fluttur nær fjallinu og kallaðist eftir það Hallbjarnareyri en gamla bæjarstæðið hét Tóftir. Kirkjan var einnig flutt en hún var lögð af 1563.

Frá árinu 1654 var starfræktur holdsveikraspítali á Hallbjarnareyri og gaf konungur jörðina til spítalahaldsins. Var spítalinn þar allt til 1848, þegar hann var formlega lagður niður, en sjúklingar voru alla tíð fáir, yfirleitt 4-5 og stundum færri. Þeir tveir sjúklingar sem voru á spítalanum voru þó um kyrrt og dó sá síðari 1863. Jörðin varð þá eign Læknasjóðs sem síðan rann inn í ríkissjóð. Búskapur hélt þó áfram þar en jörðin fór í eyði 1986.

Heimildir

breyta
  • „Frá Kirkjufirði til Grundarfjarðar. Morgunblaðið, 16. ágúst 1986“.
  • „Vineta Karimova: Eyri fyrr og nú. Lokaritgerð, Hugvísindasvið HÍ, 2010“ (PDF).