Holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri

Holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit í Vestfirðingafjórðungi er einn fjögurra holdsveikraspítala á Íslandi sem heimilað var að stofna með konungsbréfum 10. maí 1651 og 12. maí 1652. Engin lækning við holdsveiki var viðhöfð á spítalanum því tilgangur holdsveikraspítalanna var að einangra holdsveikisjúklinga og koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra.

Þórir Guðmundsson var fyrsti forstöðumaður eða hospítalsforstandari Hallbjarnareyrarspítala eða frá fardögum 1653 og var þá hafist handa við að reisa spítalann og innheimta spítalafiskinn sem var aðaltekjustofn spítalans. Fyrstu fjórir vistmennirnir komu á Hallbjarnareyrarspítala vorið 1655. Þá tók við forstöðumannsstarfinu Jón Jónsson frá Hraunskarði í Neshreppi. Híbýli vistmanna á Hallbjarnareyri virðast hafa verið þokkaleg fyrstu árin á meðan spítalinn var nýbyggður en versna þegar frá líður.

Í manntalinu frá 1703 sem tekið er í Eyrarsveit þá er Hallbjarnareyri nefnd Hospítalseyri og þá eru fjórir vistmenn eða hospítalimir á Hallbjarnareyrarspítala. Árið 1796 var reist nýtt spítalahús á Hallbjarnareyri en það var árið 1816 orðið svo fúið að ekki var hættulaust að hafast við í því um veturinn. Nýtt hús handa sjúklingum er reist árin 1817 til 1818. Það kostaði 65 ríkisdali.

Þorleifur Þorleifsson tók við Hallbjarnareyri á fardögum 1840 og bjó þar til 1857. Þegar Þorleifur fór frá Hallbjarnareyri bauðst hann til að taka að sér þann eina spítalalim sem þá var á lífi fyrir helmingi minni meðgjöf en greitt hafi verið með honum á Hallbjarnareyri.

Heimild breyta

  • „Holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri“. Sótt 14. júlí 2006.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.