Ólafur Jónsson (skólameistari)

Ólafur Jónsson (163724. september 1688) var kennari og síðan skólameistari í Skálholtsskóla um þrjátíu ára skeið og síðan prestur í Hítardal og prófastur í Mýraprófastsdæmi en dó eftir nokkra mánuði í embætti.

Ólafur var sonur séra Jóns Böðvarssonar í Reykholti og höfðu faðir Ólafs, afi og langafi allir verið þar prestar, hver af öðrum og síðan tók bróðir hans og svo bróðursonur við. Kona séra Jóns og móðir Ólafs var Sesselja Torfadóttir. Ólafur lærði í þrjú ár við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo til íslands og varð heyrari við Skálholtsskóla 1659. Hann sóttist eftir skólameistarembættinu 1661 en dró sig til baka og Oddur Eyjólfsson varð skólameistari. Þegar hann lét af störfum 1667 varð Ólafur skólamestari. En þegar hann var nýtekinn við kom maður að nafni Kort Ámundason, frá Skógum undir Eyjafjöllum, og sagðist eiga forgang til embættisins þar sem hann væri meira lærður og hefði lokið háskólaprófi. Hann hélt kröfu sinni svo stíft fram að Brynjólfur biskup sá þann kost vænstan að láta þá Ólaf ganga undir próf til að kanna hvor þeirra væri lærðari. En þá tilkynnti Teitur Torfason, ráðsmaður í Skálholti, að hann ætti þá forgang fram yfir Kort því hann væri einnig með háskólapróf og hefði einnig barist hraustlega gegn Svíum. Þegar Kort heyrði þetta hætti hann við að keppa um skólameistarastöðuna en gerðist heyrari við skólann og Ólafur fékk stöðuna. En Kort og Teitur voru báðir látnir innan tveggja ára.

Ólafur gegndi skólameistaraembættinu í rúm tuttugu ár, eða allt til vors 1688,en hafði þó verið vígður prestur í Hítardal haustið 1667. Hann fór svo í prestakall sitt um en hafði ekki setið þarn nema fjóra mánuði þegar hann dó. Hann var sagður góður kennari, siðavandur og vel lærður, ekki síst í grísku og latínu, og þótti ástandið í skólanum gott um hans daga.

Kona Ólafs var Hólmfríður Sigurðardóttir, dóttir Sigurðar Oddssonar prests í Stafholti, sonar Odds biskups Einarssonar. Þau áttu tvo syni, Sigurð og Vigfús. Sigurður var við nám í Kaupmannahöfn og dó þar úr bólusótt 1707 en Vigfús féll útbyrðis og drukknaði á leið til Kaupmannahafnar í skóla 1703.

Heimildir

breyta
  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.
  • „Skólameistararöð í Skálholti. Norðanfari, 1.-2. tbl. 1880“.