Góði dátinn Svejk
Góði dátinn Svejk (fullur titill: Ævintýri góða dátans Svejks í heimsstyrjöldinni) er ókláruð háðsádeiluskáldsaga skrifuð af Jaroslav Hašek. Bókin kom fyrst út á tékknesku árið 1923. Upprunalega átti bókin að vera í sex bindum en Jaroslav tókst aðeins að klára fjögur þeirra áður en hann féll frá. Bindin fjögur hafa yfirleitt verið gefin út saman sem ein bók.
Höfundur | Jaroslav Hašek |
---|---|
Upprunalegur titill | Osudy dobrého vojáka Švejka za světové války |
Þýðandi | Karl Ísfeld (1942-1943) |
Land | Tékkóslóvakía |
Tungumál | Tékkneska |
Útgefandi | A. Sauer and V. Čermák |
Útgáfudagur | 1921–1923 |
Síður | 235 |
ISBN | ISBN 9789979535485 |
Sagan segir frá Josef Svejk, ungum manni sem býr í Prag og gengur í her Austurríska-ungverska keisaradæmisins í byrjun sögunnar. Ævintýri hans á meðan á herþjónustunni stendur í fyrri heimsstyrjöldinni eru æði mörg enda er Josef seinheppinn með eindæmum. Svejk hefir farið í Bjarmalandsför eins og kafli einn í bókinni gefur til kynna. Hann hefir einnig farið til réttarlækna og á geðspítala. Aðrar persónur sögunnar eru Lukas höfuðsmaður, herpresturinn, frú Müller sú er ekur honum um í hjólastól og knæpueigandinn á Bikarnum sem fær á sig fangelsisdóm af því að flugurnar á knæpunni skitu á myndina af keisaranum.
Gísli Halldórsson, leikari las söguna í útvarpið og var lestur hans gefinn út á geisladiskum.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „The Good Soldier Švejk“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. desember 2006.
Tengill
breyta- Stella Soffía Jóhannesdóttir (19. mars 2007). „Átti sögupersónan Svejk í "Góða dátanum Svejk" sér fyrirmynd eða er hún tómur skáldskapur höfundar?“. Vísindavefurinn. Sótt 24. apríl 2024.
- „Vandræði Svejks í lestinni“. Lesbók Morgunblaðsins. 27. október 1968. bls. 2-3; 14.