Ástríkur með innstæðu í Heilvitalandi

Ástríkur með innistæðu í heilvitalandi (franska: Astérix chez les Helvètes ) er frönsk teiknimyndasaga og sextánda bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1971, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote á árinu 1970. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1977.

Söguþráður breyta

Kvapíus, landstjóri Rómarveldis í Bretaníu-héraði eys öllu skattfé í eigin hirslur og heldur svívirðilegar svallveislur en sendir smáaura til yfirboðara sinna í Róm. Þegar ráðvandur skattaeftirlitsmaður, Labbíus Labbibus, frá höfuðborginni mætir á svæðið og neitar að þiggja mútur ákveður Flavíus að eitra fyrir honum. Rómverskur hermaður mælir með því að leita á náðir Sjóðríks seiðkarls sem fellst á að reyna að lækna Rómverjann en gerir þá kröfu að honum verði haldið sem gísl í Gaulverjabæ meðan þeir Ástríkur og Steinríkur halda til Sviss í leit að alparós sem er mikilvæg lækningarjurt í lyfið sem virkar. Snúi félagarnir ekki aftur verður Labbíbus tekinn af lífi.

Félagarnir leggja af stað en Kvapíus felur gjörspilltum kollega sínum í Sviss, Ístrusi Búlgibusi, að spilla fyrir leiðangrinum og helst koma í veg fyrir að þeir snúi aftur. Ístrus er álíka spilltur og Kvapíus og eyðir tímanum í svallveislur sem innihalda ofbeldisfulla drykkjuleiki með fondú-pottum í aðalhlutverki. Sóðaskapurinn og óhófið fer óstjórnlega í taugarnar á svissnesku þjónaliði hans, sem er kattþrifið og snyrtimennskan uppmáluð.

Rómverskir hermenn elta Ástrík og Steinrík á röndum en þeir njóta aðstoðar vinalegs gistihúsaeiganda og stjórnanda svissnesks banka sem báðir skjóta yfir þá skjólshúsi. Þeir komast til fjalla, þar sem Ástríkur finnur upp nútíma fjallgöngu en Steinríkur kemur að litlu gagni þar sem hann er meira og minna ofurölvi eftir að hafa þambað plómuvín. Þrátt fyrir að þurfa að draga áfengisdauðann félagann á eftir sér tekst Ástríki að finna Alparósina. Þeir snúa aftur í þorpið. Þangað kemur Kvapíus skömmu síðar, sannfærður um að skatteftirlitsmaðurinn liggi fyrir dauðanum eða hafi verið tekinn af lífi úr því að Ástríkur og Steinríkur hafi ekki komist heim, en Labbíus Labbíbus reynist þá hafa komist til fullrar heilsu og heitir Kvapíusi maklegum málagjöldum. Sögunni lýkur eins og venjulega á matarveislu þar sem Labbíbus er meðal gesta, fyrstur Rómverja til að fá þann heiður í sagnaflokkinum.

Fróðleiksmolar breyta

  • Svallveislur rómversku embættismannanna eru myrkari en tíðkast hafði í Ástríksbókunum fram að þessu. Hefur það verið rakið til stúdentauppreisnanna í Frakklandi árið 1968 en í kjölfar hennar ákvað Goscinny að gera verk sín fullorðinslegri og alvarlegri.
  • Georges Pompidou forsætisráðherra og síðar forseti Frakklands ritaði Goscinny og Uderzo bréf þar sem hann hvatti til þess að næsta ævintýri Ástríks yrði látið gerast í Sviss. Ekki var ljóstrað upp um þessi bréfaskipti fyrr en á sögusýningu um Ástríkssögurnar árið 2013.
  • Svallveislan í upphafi bókar þar sem málaðir veislugestir veltast um í ólifnaði er vísun í alræmda kvikmynd, Satyricon eftir Federico Fellini sem hafði að geyma myndrænar lýsingar á slíkum óhófsveislum.
  • Höfundarnir leika sér með flestar kunnustu staðalmyndir svissneskrar menningar, s.s. gauksklukkur, ostagerð, bankaleynd, hlutleysisstefnu, snyrtimennsku, stundvísi og jóðl. Í einu atriði sögunnar skýtur Ástríkur ör af boga og hittir fyrir tilviljun epli á höfði ungs pilts, sem er augljós vísun í söguna um Vilhjálm Tell

Íslensk útgáfa breyta

Ástríkur með innistæðu í Heilvitalandi kom út hjá Fjölvaútgáfunni árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Nafn bókarinnar á forsíðu og titilsíðu er Ástríkur með innistæðu í Heilvitalandi en á kili heitir hún bara Ástríkur í Heilvitalandi.