Ásgerður Búadóttir

Ásgerður Ester Búadóttir (4. desember 192019. maí 2014) var frumkvöðull nútíma veflistar á Íslandi. Hún var sæmd fálkaorðunni árið 1993, og auk þess naut hún heiðurslauna Alþingis frá árinu 1995. Ásgerður tók þátt í samtals 70 samsýningum og hélt 15 einkasýningar bæði hér á landi og út um allan heim.

Ævi og menntun

breyta

Ásgerður fæddist árið 1920 í Borgarnesi, og var hún næst yngst fimm barna þeirra Ingibjargar Teitsdóttur og Búa Ásgeirssonar. Þriggja ára gömul fluttist hún svo til Reykjavíkur, þar sem hún ólst upp. Ásgerður var gift Birni Th. Björnssyni, listfræðingi og rithöfundi, og áttu þau þrjú börn saman.

Árið 1942 innritaðist hún í Handíða- og myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem hún lærði að teikna og mála. Því næst stundaði hún nám við málaradeild Vilhelms Lundstrøm í Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn til ársins 1949. Á meðan hún var úti kviknaði áhugi að gera eitthvað annað en að teikna og mála, en þá uppgötvaði hún ullina. Eftir að hafa séð listvefnað í fyrsta sinn kviknaði áhugi hennar á því listformi, og haustið 1949 fjárfesti hún í litlum vefstól sem hún flutti síðan með sér heim til Íslands. Ásgerður var sjálfmenntuð í veflist, en vefnaður var hvorki kenndur við Handíða- og myndlistaskólann né Konunglegu listaakademíuna.

Ferill

breyta

Fljótlega eftir að Ásgerður flutti heim til Íslands hóf hún að kenna á námskeiðum Handíða- og myndlistaskólans árið 1950-52, en um svipað leyti hóf hún að fikra sig áfram í veflistinni.

Stíll Ásgerðar var afar persónulegur og kraftmikill, en verk hennar voru oft konstrúktíf og jafnvel samhverf að uppbyggingu þar sem hún notaði grunnformin með einföldum láréttum og liðréttum áherslum. Grunnlitirnir rauður og blár sjást mikið í verkum hennar ásamt jarðlitum eins og hvítum, gráum, brúnum og svörtum.

Árið 1956 hlaut Ásgerður gullverðlaun á alþjóðlegri lista- og handverkssýningu í München, Þýskalandi. Þau hlaut hún fyrir verk sitt ,,Stúlka með fugl". Verðlaunin voru henni mikill heiður og hvatning til að halda áfram í veflistinni, og verðlaunin vöktu einnig mikla athygli á verkum hennar. Margar sýningar á verkum hennar fylgdu í kjölfarið.

Ásgerður var sæmd fálkaorðunni árið 1993, og auk þess naut hún heiðurslauna Alþingis frá árinu 1995. Ásgerður tók þátt í samtals 70 samsýningum og hélt 15 einkasýningar bæði hér á landi og út um allan heim. Stórverk eftir Ásgerði prýða margar stofnanir og eru á öllum helstu listasöfnum hér á landi. Einnig má finna verk eftir hana á listasöfnum í Skandinavíu og Bandaríkjunum.

Helstu sýningar

breyta
  • Hallgrímskirkja, árið 2006
  • Gallerí i8, árið 1999
  • Gallerí i8, árið 1995
  • Listasafn Íslands, árið 1994
  • Listasalurinn Nýhöfn, árið 1992
  • Listasafn Borgarness, árið 1990
  • Gallerí Borg, árið 1989
  • Listasafn ASÍ, árið 1987
  • Kjarvalsstaðir, árið 1984
  • Listasafn ASÍ, árið 1981
  • Unuhús, árið 1967
  • Bogasalur Þjóðminjasafnsins, árið 1964
  • Karfavogur 22, árið 1962

Heimildir

breyta