Árni Steinmóðsson
Árni Steinmóðsson (d. 1520) var ábóti í Þykkvabæjarklaustri á öðrum áratug 16. aldar. Narfi Jónsson ábóti dó árið 1509; Árni var orðinn ábóti 1515 og hefur trúlega tekið við fljótlega eftir lát hans.
Árni var sonur Steinmóðs Þorvarðarsonar en Þorvarður var sonur Steinmóðs Bárðarsonar (d. 1481) ábóta í Viðeyjarklaustri. Árni ábóti var á Alþingi 1515 og stuðlaði þá ásamt fleirum að sætt í Möðruvallamáli. Hann var fyrsti kennari Gissurar Einarssonar biskups. Árni dó 1520 og var þá ábótalaust í klaustrinu í þrjú ár, áður en Kollgrímur Koðránsson varð ábóti.