Árni Þórarinsson (biskup)

Árni Þórarinsson (f. 19. ágúst 1741, d. 5. júlí 1787) var biskup á Hólum frá 1784 til dauðadags, 1787, eða í 3 ár.

Foreldrar Árna voru Þórarinn Jónsson prestur í Hjarðarholti í Dölum, og kona hans Ástríður Magnúsdóttir frá Hvammi í Hvammssveit.

Árni ólst upp í Hjarðarholti, en missti föður sinn 1752. Fór hann þá til föðursystur sinnar í Belgsholti, sem gift var Arnóri Jónssyni sýslumanni, og létu þau kenna honum undir skóla. Árni var tekinn í Skálholtsskóla 1758, varð stúdent þaðan vorið 1760. Fór utan ári síðar, skráður í Kaupmannahafnarháskóla í desember 1761. Lauk prófi í heimspeki 1763, varð baccalaureus 1764 og lauk embættisprófi í guðfræði haustið 1766. Hann kom heim sumarið 1767 og kenndi fyrst tvo vetur á Eyrarbakka. Hann varð prestur á Seltjarnarnesi 1769 og bjó á Lambastöðum. Varð prófastur í Kjalarnesþingi 1781, fékk síðan Odda á Rangárvöllum og fluttist þangað vorið 1782. Sama ár var hann boðaður utan til þess að verða biskup á Hólum, en fór ekki til Kaupmannahafnar fyrr en haustið 1783.

Árni var vígður Hólabiskup 12. apríl 1784 og kom að Hólum samsumars. Hann var biskup þar til æviloka, 1787. Páll Eggert Ólason segir um hann: "Gáfu- og dugnaðarmaður mikill, en stórlyndur og eigi vinsæll, lengstum heilsutæpur." Árni mun hafa verið kominn með lungnatæringu (berkla) þegar hann tók við sem biskup. Aðstæður gátu vart verið verri, þegar móðuharðindi stóðu sem hæst. Samt kom Árni ýmsu til leiðar. T.d. lét hann rífa Nýjahúsið á Hólum, frá tíð Guðbrands biskups, og reisa í þess stað tveggja hæða timburhús, sem þá var mikil nýjung á Íslandi. Var það í fyrstu kallað Stiftshúsið. Mynd af því er í ferðabók Hendersons.

Engar bækur komu út á Hólum í biskupstíð Árna Þórarinssonar. Stafaði það bæði af harðindum og bágbornu ástandi prentverksins, og einnig því að þá var komin samkeppni frá prentsmiðjunni í Hrappsey. Árið 1800 kom út í Leirárgörðum útfararminning Árna Þórarinssonar.

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar skjalabækur úr embættistíð Árna biskups. Til er steinprentuð mynd af Árna, og hékk eintak af henni fyrrum uppi í Hóladómkirkju.

Kona Árna Þórarinssonar (gift 1770) var Steinunn Arnórsdóttir (f. 1737, d. 1799), þau voru systkinabörn. Börn þeirra sem upp komust voru:

  • Magnús Árnason prestur í Steinnesi.
  • Guðmundur Árnason stúdent.
  • Páll Árnason prestur á Bægisá.
  • Jóhann Árnason kennari í Reykjavíkurskóla eldra.
  • Arnór Árnason aðstoðarprestur á Bergsstöðum.

Heimildir

breyta
  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár I.Fyrirrennari:
Jón Teitsson
Hólabiskup
(17841787)
Eftirmaður:
Sigurður Stefánsson