Arnór Jónsson (sýslumaður)

Arnór Jónsson (f. 1701, d. 12. júní 1785) var sýslumaður í Belgsholti í Melasveit. Foreldrar hans voru Jón lögréttumaður Arnórsson og Guðrún Sveinbjarnardóttir, fyrsta kona hans, en þau bjuggu í Ljárskógum í Dölum.

Arnór þótti vel gefinn maður en hlaut ekki menntun í skóla. Hann starfaði fyrst sem ritari hjá Páli Vídalín, lögmanni. Síðar hafði hann sýsluvöld í Vaðlaþingi og varð síðan lögréttumaður í Dalasýslu. Kona hans var Steinunn Jónsdóttir prests í Hjarðarholti í Dölum, Þórarinssonar. Þau bjuggu fyrst í Dunki, svo í Bæ og loks í Belgsholti frá 1740 en það ár var hann settur sýslumaður í Þverárþingi sunnan Hvítár og gegndi því embætti til 1756. Hann fékk eftirlaun frá 1758.

Börn þeirra voru Jón, sýslumaður í Snæfellsnessýslu; Jón (annar), sýslumaður í Ísafjarðarsýslu; Sveinbjörn Holt, trésmiður; Steinunn, kona Árna Þórarinssonar biskups; Sigríður, kona Jóns Hannessonar prests á Mosfelli; Ingibjörg og Þórður stúdent. Einnig átti Arnór launson er hét Finnur.