Yonten Gyatso (1589–1617) var 4. Dalai Lama. Hann var sonur kans chokur-ættbálksins í Mongólíu og barnabarn Altan Kans sem ríkti yfir Tumedum. Hann var annar af aðeins tveimur Dalai Lömum sem ekki er Tíbeti (hinn var 6. Dalai Lama sem var Monba). Véfréttirnar í Nechung og Lamo Tsangpa höfðu báðar spáð því að Dalai Lama myndi endurfæðast í Mongólíu.

Yonten Gyatso

Yonten Gyatso lagði af stað til Tíbet árið 1599 þegar hann var tíu ára ásamt föður sínum, tíbetskum munkum og 1000 manna mongólsku riddaraliði. Hann var formlega samþykktur sem Dalai Lama af nefndum tíbetskra munka og fursta árið 1601. Þeir komu til Lhasa árið 1603 eftir að hafa áð í öllum klaustrum á leiðinni. Hann hóf nám hjá Lobsang Chökyi Gyaltsen Panchen Lama í Drepungklaustri og tók vígslu sem munkur árið 1614.

Margir Tíbetar vildu ekki samþykkja hann og nokkrar tilraunir voru gerðar til að hrifsa af honum völdin. Hann lést aðeins 27 ára gamall og töldu margir að eitrað hefði verið fyrir honum.


Fyrirrennari:
Sonam Gyatso
Dalai Lama
(1601 – 1617)
Eftirmaður:
Ngawang Lobsang Gyatso


  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.