Varðtunna
pallur á efri hluta stórsiglu skips til að sjá vítt yfir
Varðtunna (einnig masturskarfa, mers, húnkastali, siglukarfa eða útsýnistunna) er pallur á efri hluta stórsiglu skips eða öðru mastri þar sem maður stendur til að sjá vítt yfir og koma auga á eitt eða annað. Varðtunnan var til dæmis mönnuð til að koma auga á hættur framundan (sker eða önnur skip), til að sjá til lands og á hvalveiðiskipum til að koma auga á hval. Þeir sem hafðir voru í varðtunnu voru stundum nefndir varðgæslumenn.
Upphaflega var varðtunnan tunnulaga karfa sem bundin var við mastrið. Þar sem tunnan er lengst frá massamiðju skipsins fann sá sem þar stóð mest allra fyrir veltingi sem gat leitt til alvarlegrar sjóveiki, jafnvel hjá vönum sjómanni. Vegna þessa var litið á það sem refsingu að vera sendur í varðtunnuna.