Wright-bræður

(Endurbeint frá Wilbur Wright)

Wright bræður voru bandarískir bræður að nafni Wilbur og Orville sem fyrstir flugu flugvél.

Orville Wright
Wilbur Wright

Árið 1903 urðu tímamót í sögu mannkyns því þá tókst þeim Wilbur Wright (1867 – 1912) og Orville Wright (1871 – 1948) fyrstum manna að ná því að koma mannaðri vélflugu á loft.[1] Fyrsta flug þeirra bræðra varði í 12 sekúndur og vélin náði 20 feta hæð.[2] Þó flugið hafi ekki verið langt þá afsönnuðu þeir kenningar lærðra vísindamanna um að vél sem væri þyngri en loftið gæti ekki flogið.[3] Þetta fyrsta flug átti einnig eftir að skipta sköpum fyrir framtíðarsýn manna því 20. öldin átti efir að verða flugöldin í samgöngusögunni.[4]

Uppeldi bræðranna

breyta

Wright bræður ólust upp í Dayton, Ohio í Bandaríkjunum. Faðir þeirra, Milton Wright var biskub „í kirkju sameinaðra bræðra í kristi“ og hann var einnig ritstjóri dagblaðs sem kirkjan gaf út.[5] Vegna starfa föður þeirra, þurfti fjölskyldan að flytjast oft en þau seldu aldrei hús fjölskyldunnar í Dayton. Í húsinu voru tvö bókasöfn, annars vegar bókasafn með guðfræðilegu efni og hins vegar bókasafn með fjölbreyttu efni að öðru tagi. Í því umhverfi sem þeir bræður ólust upp í voru börn kvött til að stunda andlega íhugun og til að rannsaka það sem vakti forvitni þeirra. Bræðurnir undu hag sínum við lestur bóka á bókasafni fjölskyldunnar og í gegnum veru sína þar kviknaði áhugi Wright bræðra á flugi. Þegar Wilbur var ellefu ára og Orville sjö ára gaf pabbi þeirra þeim litla leikfangaþyrlu sem var gerð úr korki, bambus og pappír og svo teygju sem var snúið upp á til þess að láta spaðann snúast. Þetta leikfang byggðist á uppfinningu franska brautryðjandans í flugi, Alphonse Penaud. Bræðrunum fannst þyrlan svo merkileg að þeir eyddu næstu árum á eftir í að byggja samskonar þyrlur nema þeir reyndu alltaf að stækka þær en því meir sem þeir stækkuðu þær því verri urðu flugeiginleikarnir. Bræðurnir hættu eftir nokkurra ára tilraunir að þróa þyrluna og snéru sér að tilraunum með flugdreka.[6]

Áhuginn jókst á flugi

breyta

Áhugi þeirra dvínaði á fluginu í kjölfar tíðra frétta af ofurhugum allstaðar í heiminum sem létu lífið við allskyns misheppnaðar flugtilraunir. Árið 1889 snéru þeir bræður sér að því að hanna prentvél til að prenta út eigið vikublað á pappír sem varð síðar að dagblaði. Nokkrum árum síðar eða 1892 opnuðu þeir reiðhjólaverslun og 4 árum seinna hófu þeir framleiðslu á reiðhjólum undir eigin vörumerki.[7] Sama ár, 1896, lést þýski flugmaðurinn Otto Lilienthal þegar hann var að gera tilraunir með mannaða svifflugu. Þetta brautryðjendastarf Lilienthals sýndi að mannað flug væri mögulegt. Fréttir af þessu slysi vökta athygli Wright bræðra og varð til þess að áhugi þeirra á flugi glæddist á ný.[8] Bræðurnir viðuðu að sér öllu efni sem þeir komust yfir er varðar flug og lásu það, auk þess sem þeir rannsökuðu hvað það var sem Lilienthal hafði flaskað á. Ástæða slyssins reyndist vera að Lilenthal var ekki með neinn jafnvægisbúnað í flýgildi sínu, heldur notaði hann eigin líkama til að halda jafnvægi á flýgildinu. Eftir víðamiklar athuganir þeirra bræðra hófu þeir að hanna sína eigin svifflugu.[9] Til þess að fá fullnægjandi lyftigetu fyrir stórar svifflugur þurftu Wright bræður að finna stað í Bandaríkjunum þar sem vindar voru meiri og stöðugri heldur en í nágrenni við þá í Dayton.

Wilbur skrifaði Willis L. Moore, yfirmanni bandarísku veðurstofunnar í nóvember 1899 og bað hann um upplýsingar um veðurfarslegar aðstæður um allt land. Þegar þeir bræður höfðu fengið upplýsingarnar þá ákváðu þeir að flytjast til Kitty Hawk í Norður-Karólínu, því aðstæður voru mjög góðar þar.[10] Bræðurnir eyddu næstu árunum þar (1900-1902) og gerðu tilraunir á flugdrekum auk þess sem þeir framkvæmdu yfir 700 vel heppnuð flug á svifflugum.[11] Þeir bjuggu einnig til vindgöng þar sem þeir prófuðu allskyns laganir á vængjum. Þessar tilraunir leiddu þá að leyndardómum flugsins, hinni fullkomnu lögun vængsins.[12] Eftir að bræðurnir höfðu uppgötvað hvernig vængurinn þarf að vera gerður svo að hann virki sem lyftitæki var næsta skref hjá þeim að vélvæða flýgildið. Þá stóðu þeir frammi fyrir öðru vandamáli. Það fannst enginn vélaframleiðandi sem gat útvegað þeim nógu létta og öfluga vél, auk þess sem framleiðendurnir höfðu jafn litla sem enga trú á einhverjum reiðhjóla-smiðum úr litlu sveitaþorpi. Lærðir vísindamenn höfðu gefið út þá kenningu áður að það væri ekki hægt að láta vél fljúga sem væri þyngri en loftið og vélarframleiðendurnir trúðu ekki að bræðurnir myndu kollvarpa þeirri kenningu.[13]

Fyrsta flugvélin verður til

breyta

Wright bræður gerðu sér fljótt grein fyrir því þeir þyrftu að hanna sinn eigin mótor sjálfir. Þeir hófust handa við að hanna og smíða létta og hentugan vélbúnað í flugfarið. Þeim tókst að hanna framúrskarandi bensínhreyfil sem var svo öflugur að þeir máttu alveg við því að þyngja vélina. Það gerðu þeir með því að styrkja hana svo hún myndi þola frekar þau átök sem í vændum voru með auknu flugi.[14]

Fyrsta flugferðin

breyta

Þann 14. desember 1903 var komið að því að láta reyna á áralanga vinnu þeirra bræðra. Þeir drógu fána að húni til að láta nágranna sína, sem voru starfsmenn hjá nærliggjandi veðurathugunarstöð, vita hvað stæði til. Þegar stundin rann svo upp var fjöldi áhorfenda mættur til að verða vitni af fyrsta vélknúna flugi sögunnar. Bræðurnir köstuðu pening upp á hver skildi fljúga fyrstu ferðina og var það eldri bróðurinn, Wilbur, sem hlaut þann heiður. Reynslan var ekki mikil og var flugið alveg eftir því, flugvélin reis allt of hratt upp og þegar hún hafði náð fjögra og hálfs metra hæð þá „stallaði“ vélin og hrapaði aftur til jarðar. Wilbur sakaði ekki en flugvélin skemmdist þó lítillega. Bræðurnir voru sammála um það að þetta flug hefði ekki talist sem raunveruleg flugferð enda flaug vélin ekki nema 30 metra á þremur og hálfri sekúndu. Þrátt fyrir misheppnaða flugferð þá neituðu bræðurnir að gefast upp og gerðu aðra tilraun þrem dögum seinna eða 17. desember.[5] Það var dreginn fáni að húni í annað sinn en undirtektirnar voru mun minni heldur en í fyrra skiptið því aðeins fjórir karlmenn mættu auk eins stráks. Einn áhorfandanna var ljósmyndari sem freistaði þess að ná mynd af þessum sögulega viðburði. Aðstæður voru ekki eins góðar og bræðurnir vonuðust til því það var frost og mikill vindur. Þeir létu það ekki á sig fá og létu til skarar skríða. Orville fór um borð, flaug vélinni og náði að halda henni á lofti í tólf sekúndur og flaug hann henni 36 metra. Sama dag flugu bræðurnir þrjár ferðir til viðbótar, síðasta ferðin var lang lengst þeirra, hún stóð yfir í 59 sekúndur og flaug vélin 260 metra. Þeir þurftu að vísu að hætta eftir fjórðu ferðina því vélin hafði skemmst örlítið í þeirri ferð.[15]

Atburðurinn þótti ekki fréttnæmur í fyrstu

breyta

Eftir flugin voru bræðurinr að vonum himinlifandi og fóru þeir út að veðurathugunarstöðina til að senda föður sínum skeyti og segja frá atburðunum og tilkynna honum að þeir væru væntanlegir heim. Þá fengu þeir skeyti til baka frá símritaranum í Norfolk og hann spurði hvort hann mætti senda skeytið áfram á vin sinn sem starfaði fyrir eitt af dagblöðum bæjarins. Bræðurnir svöruðu: „Alls ekki“, en samt sem áður birtist fréttin. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina tókst ekki að finna neitt vitni þannig að hann skáldaði inn í eyðurnar og sauð saman allsherjar lygasögu, sem var full af vitleysum. Þegar upphaflega skeytið sem bræðurnir sendu komst loks til Deyton höfðu margar hendur komist að skeytinu og innihald þess hafði breyst mikið. Til dæmis var lengsti flugtíminn orðinn 57 sekúndur í stað 59 sekúndna og nafnið Orville hafði breyst í Orevelle. Þegar fréttirnar bárust svo loks til heimabæjar þeirra bræðra, Dayton, þóttu þær ekki fréttnæmar og dagblöðin minntust lítið sem ekkert á afrek þeirra Wright bræðra. Annað dagblaðið í bænum skrifaði örlitla grein að um atburðinn og gerði lítið úr honum. Í henni stóð að bræður úr bænum hefðu hermt eftir evrópskum loftfarastjóra, sem var þekktur fyrir loftförin sín. Sökum áhugaleysis blaðanna liðu mörg ár þar til afrekið komst í hámæli.[16] En Wright bræður létu lítið og lélegt umtal ekki á sig fá og héldu áfram að þróa flugvélarnar. Wilbur sagði eitt sinn „Ef ég talaði mikið, myndi ég líkjast páfagauk, fugli sem talar mikið en flýgur lítið.“[17]

Flugvélarnar urðu betri og áhuginn á þeim jókst

breyta
 
Orville sýnir Bandaríkjaher Flyer III árið 1908.

Árið 1905 voru þeir búnir að ná svo góðu valdi á stjórnun flugvélanna að þeir gátu lent þeim aftur á sama stað og þær tóku á loft. Bræðurnir héldu áfram að þróa flugvélar og voru fremstir á því sviði í nokkur ár.[18] Árið 1908 flaug Orville flugvél þeirra bræðra í fyrsta sinn flug sem stóð yfir í meira en eina klukkustund. Það gerðist á sýningu í Fort Myer í Virginiu fyrir Bandaríkjaher og það leiddi af sér sölu á flugvélum til Bandaríkjahers sem urðu jafnframt fyrstu flugvélar hersins og jafnframt heimsins. Sama ár flaug Wilbur yfir hundrað flug í Frakklandi og stóð það lengsta yfir í tvær klukkustundir og nítján mínútur.[19]

Að lokum

breyta

Wilbur lést árið 1912, langt fyrir aldur fram, aðeins 45 ára að aldri úr taugaveiki sem hann hafði glímt við síðan hann lenti í slysi á íshokkíkappleik ungur að árum. Orville lést árið 1948, 77 ára að aldri, úr hjartaáfalli.[20]

Tilvísanir

breyta
  1. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson 2006:148
  2. Eye witness to history 2003
  3. Lifandi vísindi 2001:61
  4. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson 2006:148
  5. 5,0 5,1 „Telegram from Orville Wright in Kitty Hawk, North Carolina, to His Father Announcing Four Successful Flights, 1903 December 17“. World Digital Library. 17. desember 1903. Sótt 22. júlí 2013.
  6. Wright House 2011
  7. „Wilbur Wright Working in the Bicycle Shop“. World Digital Library. 1897. Sótt 22. júlí 2013.
  8. Wright House 2011
  9. One hundred great lives Bls. 148
  10. Wright House 2011
  11. Eye witness to history 2003
  12. Wright House 2011
  13. Lifandi vísindi 2001:61
  14. Lifandi vísindi 2001:61
  15. Lifandi vísindi 2001:60
  16. Lifandi vísindi 2001:61-62
  17. One hundred great lives bls. 151
  18. Lifandi vísindi 2001:62
  19. Wright House 2011
  20. Wright House 2011

Heimildir

breyta
  • Eye Witness to History. 2003. The Wright Brothers – first flight 1903. Sótt 17. mars 2012 af http://www.eyewitnesstohistory.com/wright.htm
  • Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson: Nýir tímar – Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamót. Mál og menning, Reykjavík 2006.
  • Lifandi vísindi. 2001. Tveir hjólasmiðir gefa manninum byr undir báða vængi. 2:59-62.
  • One hundred great lives. Odhams press LTD, London [á.á.].
  • Wright House. 2011. The wright brothers: Wilbur and Orville Wright. Sótt 17. mars 2012 af http://www.wright-house.com/wright-brothers/Wrights.html