Wikipedia:Gæðagreinar/Rúnir
Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2. öld þar til þær smám saman viku fyrir latnesku letri. Rúnir voru fyrst og fremst höggnar í stein eða ristar í tré.
Elstu rúnir sem fundist hafa eru frá seinni hluta 2. aldar og voru þær algengar næstu þúsund árin um norðanverða Evrópu, einkum á Norðurlöndum. Með útbreiðslu kristni fylgdi latneska stafrófið inn í þjóðfélög germana og notkun rúnaletursins stórminnkaði allt frá 12. öld. Þó var það talsvert notað á Norðurlöndum allt fram á 14. öld og voru rúnir í notkun (einkum til skrauts) á einstaka stað allt fram um lok 19. aldar.
Allra elsta rúnaristan, sem þekkt er, er frá því um 150 e.Kr. á greiðu úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Næst elstu rúnaristurnar eru frá seinni hluta 2. aldar og virðist rúnastafrófið hafa þá þegar verið komið í fastar skorður. Allar ristur frá 2. og 3. öld eru mjög stuttar, eitt eða tvö orð. Flestar þeirra hafa fundist í Suður-Skandinavíu, á Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og á Skáni og bendir það til þess að rúnir séu upprunnar þaðan.