Wikipedia:Gæðagreinar/Búddismi
Búddismi er trúarbrögð og heimspekikenningar sem eru byggð á kenningum Siddhārtha Gátama (á sanskrít, á palí heitir hann Siddhattha Gotama), sem lifði fyrir 2500 árum síðan. Siddharta Gátama hlaut síðar tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Búddisminn náði mikilli útbreiðslu á Indlandi og þaðan til Mið-Asíu, Srí Lanka og Suðaustur-Asíu og einnig til Austur-Asíu, Kína, Mongólíu, Kóreu og Japan. Á síðari áratugum hefur búddismi fengið talsvert fylgi meðal vesturlandabúa, meðal annars á Íslandi.
Óvíst er hversu marga má telja sem búddista í heiminum, í mörgum þeirra landa þar sem búddismi hefur mikil áhrif, til dæmis Kína og Japan, telur fólk sig oft til margra trúfélaga samtímis. En sennilega má álykta að fjöldi búddista sé á bilinu 200 til 500 milljónir. Oft er talað um að um 380 milljónir fylgi kenningum Búdda og gerir það búddisma að fjórðu stærstu trúarbrögðum heimsins. Búddistar á austurlöndum hafa ekki notað þetta nafn heldur kallað sig fylgjendur dhamma/dharma. Þeir tala oft um kjarna trúarinnar sem gimsteinana þrjá: Búdda, dhamma/dharma og sangha, það er læriföðurinn, kenningin og söfnuðurinn.