Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur

Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur er verkalýðsfélag í Bolungarvík.

Félagið var stofnað 27. maí 1931. Formaður var kjörinn Guðjón Bjarnason. Í ársbyrjun 1932 fór félagið í verkfall. Þá var kaup karla í verkamannavinnu 75 aurar og tímakaup kvenna 45 aurar en nætur- og skipavinnukaup 1 króna. Verkfallið stóð aðeins í nokkra daga og þá skrifaði Einar Guðfinnsson undir samninga við félagið og var samið um kaup karla 80 krónur á tímann og 1 króna og 30 aura fyrir nætur og skipavinnu. Atvinnurekendurnir Bjarni Fannberg og Högni Gunnarsson neituðu í maí 1932 að skrifa undir samninga við félagið og tilkynntu kauplækkun og brást félagið við með afgreiðslubanni. Hannibal Valdimarsson kom til Bolungarvíkur 26. júní 1932 í för Karlakórs Ísafjarðar til að kynna sér aðstæður og aðstoða félagið. Á meðal hann var í kaffi í húsi í bænum þá kom að mannþyrping og fyrir henni fór Högni Gunnarsson sem sagði bát bíða eftir Hannibal við öldubrjótinn með tilbúna vél í gangi. Urðu ryskingar og var Hannibal fluttur nauðugur í bátinn. Báturinn bilaði og var Hannibal tekinn og færður í annan bát og farið með hann til Ísafjarðar.

Við Norðurtangabryggju kom lögregluþjónn Ísafjarðar í bátinn og tók bátsverja fasta. Þegar fréttist af handtöku Hannibals og nauðaflutningnum stóð yfir fundur í Sjómannafélagi Ísafjarðar. Fjölmenntu félagsmenn niður á bryggju. Síðar um kvöldið héldu 40 Ísfirðingar með Hannibal í broddi fylkingar á báti til Bolungarvíkur og var haldinn fundur í Góðtemplarahúsinu. Á þessum tíma var kaup lægra í Bolungarvík en á Ísafirði.

Félagið er aðili að Sjómannasambandi Íslands og Starfsgreinasambandi Íslands.

Tengt efni breyta

Heimild breyta