Vatnsbað er í matargerð aðferð til að hita mat hægt og tempra hitastig svo að það fari ekki yfir tiltekinn hámarkshita, ýmist í potti eða ofni. Aðferðin gengur út á að nota tvöfalt ílát eða tvö ílát þar sem hið stærra inniheldur vökva (oftast vatn) og situr á eldavélarhellu eða ofngrind en minna ílátið inniheldur matinn og situr í því stærra. Með þessu móti verður maturinn aldrei heitari en sem nemur suðumarki vökvans í ytra ílátinu. Vökvinn eða gufan frá honum dreifir líka hitanum betur en hellan eða ofninn gerir og tryggir hægari og jafnari upphitun.

Súkkulaði brætt í vatnsbaði.

Þegar hitað er í vatnsbaði á eldavélarhellu má nota sérstaka, tvöfalda potta, pott sem hitaþolin skál er sett yfir (og snertir þá oft ekki vökvann svo að það er gufan frá því sem hitar innihald skálarinnar) eða jafnvel lítinn pott sem settur er ofan í annan stærri. Þegar eldað er í vatnsbaði í ofni er sjóðheitt vatn sett í ofnskúffu eða steikarfat og annað minna fat eða form sett þar ofan í.

Vatnsbað á eldavélarhellu er meðal annars notað til að þykkja sósur eins og béarnaise-sósu, þar sem suða myndi kekkja eða skilja sósuna, til að bræða súkkulaði, gera vanillusósu og fleira slíkt, og einnig til að halda ýmsum mat heitum. Vatnsbað í ofni er meðal annars notað til að baka crème brûlée og aðra eggjabúðinga, ýmis paté, ostakökur og fleira.

Heimildir

breyta
  • „Technique: How to Make and Use a Bain Marie“. Á www.thekitchn.com, skoðað 3. október 2012.