Sjóveiki (eða sjósótt) er eitt afbrigði ferðaveiki sem stafar af veltingi á sjó. Henni fylgir flökurleikatilfinning og svimi, og heldur í sumum tilfellum áfram þó í land sé komið. Margir kasta upp og liggja fyrir, en öðrum er aðeins ómótt og nefnist það launsótt þ.e. ef maður er með ógleði á sjó en getur ekki kastað upp.

Veltingur bátsins truflar þá tilhneigingu mannsins að reyna halda þyngdarpunktinum við fætur sér. Til að halda honum sem í landi nota flestir föst viðmið í kringum sig, en þegar báturinn og aðrar einingar hans (s.s. stýrishús, möstur, borðstokkur o.s.frv.) velta einnig til og frá verður erfiðara að stilla þyngdarpunkt líkamans. Um leið verða hreyfingar líkamans til þess að maginn þrýstist upp að þindinni.

Fólk er misnæmt fyrir sjóveiki; sumir finna til sjóveiki við það eitt að stíga á skipsfjöl, jafnvel þótt legið sé við bryggju, meðan aðrir eru nánast ónæmir eða verða smámsaman ónæmir við að eyða miklum tíma á sjó.

Ráð við sjóveiki

breyta

Til eru ýmis lyf við sjóveiki, s.s. dímenhýdrínat (dramamín) og skópólamín, sem valda syfju og geta í stórum skömmtum einnig valdið ofskynjunum. Þau henta því ekki þar sem viðkomandi þarf að halda vöku sinni, t.d. kafarar. Margar rannsóknir hafa sýnt að engifer (oftast tekið inn sem duft í pillum) minnkar ógleðina og er án aukaverkana. Einnig eru til sérstök armbönd með kúlum sem þrýsta á púlsinn sem sumir vilja meina að verki á sjóveiki.

Ýmis húsráð gegn sjóveiki

breyta
  • Setja fingur í annað eyrað og loka því þannig að vökvinn í því hætti að hreyfast.
  • Hafa eitthvað fyrir stafni.
  • Horfa stöðugt á sjóndeildarhringinn eða eitthvað annað óbreytanlegt viðmið.
  • Leggjast á bakið og loka augunum.
  • Taka inn eitthvað sem sljóvgar skilningarvitin (t.d. áfengi).
  • Hafa vindinn í andlitið.
  • Standa sem næst þyngdarpunkti bátsins til að minnka áhrifin af veltum.
  • Halda um stýrishjólið, þar sem þannig fær viðkomandi eitthvað að gera og hefur sjálfur stjórn á hreyfingum bátsins.

Tengt efni

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.