Guðmunda Andrésdóttir

íslensk myndlistarkona

Guðmunda Andrésdóttir (3. nóvember 1922 - 31. ágúst 2002) var íslensk myndlistarkona. Hún er einn helsti fulltrúi íslenskrar abstraktlistar.

Ævi breyta

Guðmunda fæddist í Reykjavík og foreldrar hennar voru Salvör Ingimundardóttir (1888-1980) hjúkrunarkona og Andrés P. Böðvarsson (1896-1931) sjómaður.[1]

Guðmunda lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1941. Hún hóf myndlistarnám árið 1945 er hún hélt til náms í Svíþjóð.[2] Hún lauk kennaraprófi frá Konstfackskolan í Stokkhólmi árið 1946 og stundaði nám við málaraskóla Otte Skjöld í Stokkhólmi 1945-1946 og Listaháskólann í Stokkhólmi 1946-1948. Hún hélt síðar til Parísar og nam við L'Académie de la Grande Chaumière árið 1951 og við L'Académie Ranson frá 1951-1953. Árið 1953 flutti hún aftur til Íslands.

Hún hélt nokkrar einkasýningar, þá fyrstu árið 1956[2] og tók þátt í samsýningum hérlendis og erlendis. Hún var um árabil einn félaga í Septem-hópnum sem var vettvangur íslenskra abstraktmálara um árabil. Árið 1990 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundu á Kjarvalsstöðum.[1]

Meðal safna sem eiga verk eftir Guðmundu eru Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn ASÍ, Listasafn Kópavogs og Colby Art Museum í Maine í Bandaríkjunum en einnig eiga einkasafnarar víðsvegar um heim verk eftir hana.[1] Listasafn Háskóla Íslands á einnig fjölda verka eftir Guðmundu, m.a. 76 verk sem hún gaf safninu.[3]

Guðmunda fékk franskan myndlistarstyrk árið 1952 og árið 1971 hlaut hún tólf mánaða starfslaun ríkisins. Hún var valin borgarlistamaður Reykjavíkurborgar árið 1995.

Samhliða myndlistinni starfaði Guðmunda á skrifstofu Laugavegsapóteks frá 1941-1945, var teiknikennari við Lindargötuskóla 1953-1956 og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1953-1956 en frá 1956-1990 var hún skrifstofumaður hjá Rafmagnsveitu ríkisins og Orkustofnun.[1]

Hjá Listasafni Íslands er Styrktarsjóður Guðmundu Andrésdóttur starfræktur. Til sjóðsins var stofnað með arfi frá Guðmundu og er sjóðnum ætlað að styrkja myndlistarfólk til framhaldsnáms.[4]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Guðmunda Andrésdóttir - Minningargreinar“, Morgunblaðið, 14. september 2002 (skoðað 13. febrúar 2021)
  2. 2,0 2,1 „Glími stöðugt við abstraktið“, Morgunblaðið - Menning og listir, 31. mars 1990 (skoðað 13. febrúar 2021)
  3. Hi.is, „List-míla á 40 ára afmæli Listasafns Háskóla Íslands“ (skoðað 13. febrúar 2021)
  4. Listasafn.is, „Styrktarsjóður Guðmundu Andrésdóttur“ (skoðað 13. febrúar 2021)