Vélmenni í veiðihug

bók um Sval og Val frá árinu 1985

Vélmenni í veiðihug (franska: Qui arrêtera Cyanure?) er 35. Svals og Vals-bókin og þriðja bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1985 og á íslensku síðar sama ár.

Kápumynd bókarinnar Vélmenni í veiðihug.

Söguþráður

breyta

Óprúttinn sölumaður prangar inn á Val ljósmyndavél sem einnig er nokkurs konar vélmenni. Vélin leggur á flótta og elta þeir Svalur og Valur hana alla leið til Sveppaborgar og inn á skringilegt verkstæði. Þar sjá þeir myndarlega stúlku keflaða og bundna við stól, þeir losa hana en hún gengur berserksgang og hleypur á braut.

Stúlkan reynist vera vélmennið Vélrún (franska: Cyanure) sem fyrrum lestarstarfsmaður bjó til í frístundum. Undanfarna daga hafði vélmennið gert margvíslegan óskunda í borginni. Freista þeir félagarnir þess að handsama Vélrúnu, en í ljós kemur að hún getur stýrt öllum raftækjum og snúið þeim gegn fólki.

Í grennd við Sveppaborg hefur nýlega risið hátækniverksmiðja með fjölda vélmenna. Lokauppgjörið á sér stað í verksmiðjunni þar sem Vélrún beitir vélmennunum fyrir sig, en Svalur og Valur hafa fengið börnin í Sveppaborg með sér í lið.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan gerist að mestu leyti í Sveppaborg, en Sveppagreifinn kemur þó ekkert við sögu.
  • Kápumynd bókarinnar sýnir Sval og Val standa skelfingu lostna andspænis vígavélmenninu, sem stendur gleitt fremst á myndinni. Þetta er bein vísun í einkennisplakat James Bond-kvikmyndarinnar For Your Eyes Only.
  • Í lokamyndarömmum bókarinnar kemur fram að þótt félagarnir telji sig hafa ráðið niðurlögum Vélrúnar, sé hún ekki dauð úr öllum æðum. Engu að síður hefur hún ekki komið fyrir í fleiri bókum.

Íslensk útgáfa

breyta

Bókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1985 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer tuttugu í íslensku ritröðinni.

Heimildir

breyta
  • Splint & Co. 1981-1983. Forlaget Zoom. 2015. ISBN 978-87-93244-03-0.
  • De Blieck Jr., Augie „Spirou & Fantasio v12: “Who Will Stop Cyanide?”“, Pipelinecomics, 29. september 2017.