Vættur

yfirnáttúruleg vera

Vættur, goðsagnavera eða þjóðsagnavera, er yfirnáttúruleg vera sem kemur fyrir í þjóðsögum og þjóðtrú. Slíkar vættir voru líka algengar í ferðasögum, sagnaritum og landfræðiritum fyrri alda. Oft er um að ræða einhvers konar skrímsli - blöndu dýrategunda, eins og dreka; mannverur með líkamsparta dýra, eins og kentára eða satýra; eða mannlegar verur úr öðrum heimum eða hliðarheimum, eins og tröll, djöfla, drauga, engla og álfa.

Mínótár er mannvera með nautshaus sem kemur fyrir í grískri goðafræði.

Í sögnum er stundum talað um góðvættir eða hollvættir (vættir sem hjálpa fólki), og illvættir eða óvættir (vættir sem valda fólki skaða).

Duldýrafræði eru fræði sem ganga út frá því að sumar þjóðsagnaverur kunni að byggjast á raunverulegum óþekktum dýrategundum eða óvenjulegum einstaklingum. Slík óþekkt dýr eru þekkt sem duldýr innan þessara fræða. Þótt flestir dýrafræðingar fallist á að til séu þúsundir óþekktra tegunda lífvera í heiminum, er duldýrafræði oftast flokkuð sem hjávísindi.