Weegee, réttu nafni Usher Fellig, (12. júní 189926. desember 1968) var ljósmyndari frá Zlothev í Austurríki þar sem nú heitir Úkraína. Hann var sonur gyðingahjóna sem fluttust með fjölskyldu sína til New York árið 1909 og settust að í innflytjendagettói á Manhattan, Lower East Side, en Weegee var þá tíu ára. Þar fékk hann nafnið Arthur Fellig.

Weegee ca 1945.
Weegees myndstimpill.

Weegee er þekktur fyrir myndir sínar af myrkrahliðum New York-borgar svo sem af slysum, morðum, ránum, slagsmálum, eldsvoðum, skemmdarverkum, myndum af óvenjulegu fólki, dvergum, klæðskiptingum, drykkjusjúklingum og fötluðum sem og fyrir myndir sínar af frægu fólki, leikurum og stjórnmálamönnum, en hann mun vera fyrsti paparazzinn sem sögur fara af.

Æviágrip

breyta

Menntun og störf

breyta

Weegee var sjálfmenntaður í ljósmyndun. Á ferli sínum starfaði hann fyrir fréttablöð á borð við PM Daily, New York Tribune, New York Post, World-Telegram, Daily News, Journal-American og New York Sun og tímarit á borð við Life, Look og Vouge. Hann starfaði fyrst í ljósmyndastúdíói sem fékkst við vegabréfamyndatökur en hóf síðan störf hjá Acme Newspictures Services sem aðstoðarmaður við framköllun. Hann var þá stundum sendur út til að taka myndir, einkum að næturlagi. Hann keypti sér eigin myndavél árið 1930 sem varð hans aðalverkfæri upp frá því. Vélin var af gerðinni Speed Graphic 4x5 með leifturljósi en þannig vélar eru samtvinnaðar amerískri fréttaljósmyndun á árunum 1930-1940. Árið 1936 hóf hann að starfa sem fréttaljósmyndari og næstu tíu árin þar á eftir vann hann í nánum tengslum við lögregluna í New York, fyrst með því að mæta í aðalstöðvar lögreglunnar á Manhattan en þangað bárust fyrstu fréttir af slysum, glæpum og öðrum hörmungum á nokkurs konar fréttarita. Þar fær hann viðurnefnið „Weegee“ sem er dregið af hugtakinu „Ouija borð“ sem er afbrigði af andaglasi en talið er að nafnið hafi hann fengið vegna undarlegs hæfileika síns til að þefa uppi fréttnæmt myndefni. Sumir vilja þó meina að nafnið sé tilkomið vegna þess að hann starfaði sem „gúmmísköfudrengur“ („squeegee boy“) hjá New York Times um 1920 en það starf var liður í framköllunarvinnsluferli og fólst í því að skafa bleytuna af ljósmyndum með gúmmísköfu þegar þær komu upp úr framköllunarvökvunum.

Listamaðurinn

breyta

Í myndum hans speglast einstakt næmi fyrir tilfinningum fyrirmyndanna. Frétta og heimildaljósmyndun gefur sig út fyrir að vera (og fólk lítur oft þannig á) hlutlaus. Þannig er ljósmyndarinn óhlutdrægur athugandi sem skrásetur atburði. Þó er það svo að margir ljósmyndarar sýna sterka íhlutun í og taka afstöðu til málefna með myndgerð sinni. Nefna má samtíðarfólk Weegees svo sem Dorotheu Lange og Lewis Hine, en þau störfuðu meðal annars fyrir FSA (Farm Security Administration, 1935), sem með myndum sínum reyndu að hafa samfélagsleg áhrif. Sömuleiðis máLife nefna Robert Capa og Eugene Smith. Líkt og hjá Weegee eru myndir þessa fólks mótaðar af persónulegu viðhorfi. Þær segja talsvert um ljósmyndarann sjálfan. Þau segja söguna með sínu nefi. Einhvern tíma myndaði Weegee stórbruna í New York. Aðrir ljósmyndarar sem mynduðu sama atburð mynduðu húsbrunann sjálfan, en Weegee sneri sér við og myndaði örvæntingarfull andlit íbúanna sem höfðu sumir misst ættingja sína í brunanum. Svipuð vinnubrögð má sjá í áhrifaríkri mynd hans „Their first murder“ (1941) en þar snýr hann vélinni að áhorfendum sem virða fyrir sér lík manns sem hefur verið myrtur og frystir viðbrögð þeirra. Útkoman er óvænt og sláandi.

Weegee hefur verið kallaður heimildaljósmyndari stórborgarinnar og vann sér orðspor sem helsti glæpaljósmyndari New York. Hann starfaði svo til alltaf sjálfstætt. Árið 1938 varð hann fyrstur fréttaljósmyndara til að fá leyfi til að hlera samtöl lögreglunnar í gegnum talstöðvarkerfi og útbjó bíl sinn, sem var athvarf hans á næturnar, með móttökugræjum fyrir tíðni lögreglunnar og slökkviliðsins. Þannig var honum auðið að fylgjast með því sem var í gangi. Glæpir voru aðalsmerki hans.

Dauði

breyta

Weegee lést í New York 26. desember árið 1968. Heimildum virðist ekki bera saman um banamein hans. Sumsstaðar er talað um sykursýki, annarsstaðar um heilaæxli. Weegee hefur haft áhrif á marga ljósmyndara og má meðal annars nefna fólk á borð við Diane Arbus, Lee Friedlander, Larry Clark, Gary Winogrand, Les Krims og Eugene Richards.

Tenglar

breyta