Upprisa Z
Upprisa Z (franska: Le réveil du Z) er 37. Svals og Vals-bókin og sjálfstætt framhald Tímavillta prófessorsins. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1985 og kom út á bókarformi árið eftir. Upprisa Z er fimmta bók þeirra Tome og Janry og var gefin út á íslensku á árinu 1987.
Söguþráður
breytaValur reynir að sannfæra útgefanda sinn um að birta grein hans um tímaflakk þeirra félaganna úr Tímavillta prófessornum, en gengur illa að fá menn til að trúa sögunni. Hann drekkur ótæpilega af áfengi og stórslasar sig á ritstjórnarskrifstofunni. Í lyfjavímunni telur hann sig sjá Prumpdýrið“.
Í ljós kemur að Prumpdýrið var ekki ofskynjanir, heldur sent af Árelíusi til að sækja Sval og Val til framtíðarinnar, þar sem honum er haldið föngnum. Félagarnir eru skyndilega komnir til ársins 2062. Þar er hálfgert lögregluríki, þar sem menn í einkennisbúningum merktum Z eru á hverju strái. Einræðisherrann sem fer með völdin reynist vera Zorglúbb, dvergvaxið barnabarn hins upprunalega Zorglúbbs.
Árelíus er fangi Zorglúbbs, sem vill þvinga hann til að kenna sér hvernig flytja megi menn fram og aftur í tíma í því skyni að fjölga liðsmönnum í herliði sínu. Þeim félögunum tekst ásamt aðstoðarmanni Árelíusar og Prumpdýrinu að losa prófessorinn úr haldi og eyðileggja móðurklukkuna sem veldi Zorglúbbs byggðist á.
Fróðleiksmolar
breyta- Þegar Svalur og Valur eru fluttir til framtíðarinnar, ranka þeir við sér á minjasafni. Meðal sýningargripa eru leifarnar af tótemsúlunni sem kom við sögu í Svals og Vals-bókinni Aventure en Australie.
- Í lok bókarinnar koma Sveppagreifinn og Zorglúbb í heimsókn til Svals og Vals. Zorglúbb lýsir þar áhuga sínum á að eignast afkomendur.
- Svalur og Valur reynast eiga tvífara í framtíðinni, skyldmenni sem illu heilli eru í liði með Zorglúbb.
Íslensk útgáfa
breytaBókin kom út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar árið 1987 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún er númer 22 í íslensku ritröðinni.