Aventure en Australie
Aventure en Australie (íslenska: Ævintýri í Ástralíu) er 34. Svals og Vals-bókin og önnur bók þeirra Tome og Janry. Hún kom út á frönsku árið 1985, en hefur ekki verið gefin út á íslensku.
Söguþráður
breytaBókin hefst í óbyggðum Ástralíu þar sem Sveppagreifinn er staddur ásamt ungum áströlskum aðstoðarmanni á slóðum ópal-leitarmanna. Hálfgerð ringulreið ríkir á svæðinu þar sem til árekstra kemur milli ófyrirleitinna námumanna og frumbyggja svæðisins sem vilja vernda helga staði sína.
Bitla, samstarfskona Vals, ber Sval og Val þær fréttir að Sveppagreifinn þarfnist þeirra í skyndi. Þau halda þrjú í langt ferðalag í leit að greifanum. Þegar komið er á áfangastað fá þau þær fréttir að Sveppagreifinn hafi verið myrtur. Hann reynist hins vegar vera fangi glæpamanna. Eftir bardaga við glæpalýð hafa félagarnir betur og njóta til þess aðstoðar nokkurra frumbyggja. Foringi glæpamannanna ferst í nítróglusserínsprengingu sem hann hafði ætlað Sval og Val.
Sveppagreifinn og aðstoðarmaður hans segja frá uppgötvun sinni, sem er ógnarstórt trúartákn á miðju ópal-námusvæðinu. Þar með telst landið eign frumbyggjanna sem ná samkomulagi við námamenn um heiðarlega skiptingu arðsins, en okrurum og ofbeldismönnum er úthýst.
VIð komuna heim uppgötvar Valur sér til mikillar gremju að Bitla hefur skotið honum ref fyrir rass og skúbbað fréttinni af atburðunum.
Fróðleiksmolar
breyta- Aðstoðarmaður Sveppagreifans, Donahue að nafni, kynnist honum á fyrirlestri þar sem Sveppagreifinn segir frá fundi sínum á risaeðlueggi á Suðurskautslandinu, sem fjallað er um í Le voyageur du Mésozoïque.
- Flugnúmer Svals og Vals til Sydney er 714. Það er augljós vísun í Tinna-bókina Flugrás 714 til Sydney.
Heimildir
breyta- Splint & Co. 1981-1983. Forlaget Zoom. 2015. ISBN 978-87-93244-03-0.
- De Blieck Jr., Augie „Spirou & Fantasio v1: “Adventure Down Under”“, Pipelinecomics, 27. september 2017.