Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna

Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna er stofnun sem rekin var víða um lönd, þar á meðal á Íslandi. Hún hóf starfsemi á Íslandi árið 1948. Stofnunin starfaði með og styrkti Íslensk-ameríska félagið sem upplýsingavettvang. Upplýsingaþjónustan opnaði menningar- og upplýsingamiðstöð árið 1949Laugavegi 13 í Reykjavík. Þar var gott blaða-, bóka- og kvikmyndasafn. Upplýsingaþjónustan hélt fundi og samkomur og bauð Íslendingum í kynnisferðir til Bandaríkjanna og bauð þekktu listafólki til Íslands. Árið 1951 kom Upplýsingaþjónustan upp aðstöðu til kvikmyndasýninga. Stofnunin lagði kapp á að miðla bandarískri menningu um allt Ísland og bæta ímynd Bandaríkjanna á landsbyggðinni ekki síst þar sem kommúnistar sæktu fylgi sitt. Upplýsingaþjónustan lánaði efni til ýmissa innlendra aðila og var m.a. í samstarfi við menntamálaráðuneytið um dreifingu á kvikmyndum í barnaskólum og þáttastjórnendur barnatímans Stundarinnar okkar fengu þar barnamyndir til að sýna í sjónvarpinu. Sjónvarpinu bauðst að fá barnaefnið Sesame Street en það boð var ekki þegið þar sem of kostnaðarsamt þótti að þýða það en hins vegar var þegið að fá efni til að sýna í þættinum Nýjasta tækni og vísindi. Þeir þættir urðu feikilega vinsælir. Lagt var kapp á að kvikmyndir væru þýddar á íslensku og var veittur fjárstuðningur til að íslenska kvikmyndir sem dreift var í barnaskóla. Samkeppni var milli MÍR og Upplýsingaþjónustunnar en flestar kvikmyndir sem MÍR sýndi voru ekki þýddar þannig að efni frá Upplýsingaþjónustunni hafði þar forskot.

Starfsmenn Upplýsingaþjónustunnar höfðu nafnalista sem var notaður til að bjóða fólki á sýningar en stofnunin reyndi sérstaklega að ná til verkalýðsleiðtoga, kennara, háskólanema og stjórnmálamanna. Áríð 1963 fluttist Upplýsingaþjónustan á Hótel Sögu og árið 1970 á Neshaga. Á Neshaganum var útbúinn kvikmyndasalur í kjallaranum og þar var bókasafn og fundarsalur. Efni Upplýsingaþjónustunnar breyttist með tímanum og grisjað var út áróðursefni í anda Kalda stríðsins. Nafn stofnunarinnar virðist líka breytast og kallast hún eftir 1970 Menningarstofnun Bandaríkjanna. Árið 1971 eru átta starfsmenn við stofnunina, þar af sjö Íslendingar og í kvikmyndasafninu eru 500 kvikmyndir, aðgangur er að 100 tímaritum og í bókasafninu eru 7000 bækur, flestar nýlegar.

Heimildir

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.