Tvíburarnir (stjörnumerki)
Tvíburarnir (latína: Gemini) er eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Tvíburarnir er stórt og áberandi stjörnumerki á milli Nautsins í vestri og Fiskanna í austri. Björtustu stjörnur merkisins eru Kastor og Pollúx. Um það bil 85 stjörnur sjást með berum augum í Tvíburamerkinu á dimmum næturhimni fjarri ljósmengun bæja og borga.
Kastor (α Geminorum) er næst bjartasta stjarnan í Tvíburunum (birtustig 1,58). Í stjörnusjónauka sést að Kastor er þrjár stjörnur, tvær bjartar með sýndarbirtustig 1,9 (Kastor A) og 2,9 (Kastor B) og ein til viðbótar, miklu daufari af 9. birtustigi (Kastor C). Nánari rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að Kastor er sexstirni, samsett úr þremur tvístirnum. Í tvístirninu Kastor A eru tvær stjörnur sem eru báðar um tvöfalt massameiri en sólin. Kastor er í um 50 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Pollux (β Geminorum) er bjartasta stjarnan í Tvíburamerkinu og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,16). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 og í um 34 ljósára fjarlægð frá jörðinni, tvisvar sinnum massameiri en sólin og 43 sinnum bjartari.
Goðsögur
breytaTvíburarnir eru meðal elstu stjörnumerkja himins en merkið er babýlónískt að uppruna.
Samkvæmt grískum goðsögum voru Kastor og Pollux (Pólýdevkes) tvíburabræður. Þeir voru synir Ledu Spörtudrottningar en áttu þó hvor sinn föðurinn. Leda hafði átt ástarfund með Seifi sem kom til hennar í svanslíki og tældi hana til lags við sig en sömu nótt sængaði hún hjá bónda sínum, Tyndareifi konungi. Þetta hafði þær afleiðingar að seinna ól Leda fjögur börn: Pollux og Helenu fögru, sem voru börn Seifs og því ódauðleg og Kastor og Klýtæmnestru, sem voru börn Tyndareifs og þar af leiðandi dauðleg.
Kastor og Pollux voru afar samrýmdir. Þeim varð aldrei sundurorða og voru sammála um alla hluti. Kastor var afburða knapi og stríðsmaður en Pollux var mikill hnefaleikakappi. Tvíburarnir fóru í leiðangur með Jasoni og Argóarförunum í leit að gullna reyfinu. Eitt sinn, er skipverjarnir tóku land, komu hnefaleikahæfileikar Pollux sér vel. Á landinu ríkti Amykus, sonur Póseidons, hinn mesti harðstjórisem leyfði engum að yfirgefa landið fyrr en einhver hafði barist við hann og hann gekk jafnan af andstæðingum sínum dauðum. Nú skoraði hann Argóarfara á hólm. Pollux bauð sig fram fyrir þeirra hönd og felldi Amykus með einu hnefahöggi sem höfuðkúpubraut hann.
Síðar deildu Kastor og Pollux við aðra tvíbura, Ídas og Lynkeif. Þeir voru trúlofaðir Föbe og Hilaríu sem báðar voru undurfríðar en Kastor og Pollux heilluðu þær upp úr skónum. Því kunnu Ídas og Lynkeifur illa og börðust við Kastor og Pollux um hylli þeirra. Lynkeifur rak sverð í gegnum Kastor en Pollux hefndi fyrir dauða bróður síns með því að drepa Lynkeif. Ídas réðst til atlögu gegn Polluxi en hafði ekki erindi sem erfiði því Seifur laust hann eldingu. Pollux harmaði bróður sinn og bað Seif um að þeir gætu deilt ódauðleikanum. Seifur kom þeim báðum fyrir á himninum sem stjörnumerkið Tvíburarnir þar sem þeir halda utan um hvor annan, að eilífu óaðskiljanlegir.
Augu Þjasa
breytaStjörnurnar Kastor og Pollux eru taldar koma fyrir í Snorra-Eddu undir nafninu Augu Þjasa. Sagt er frá því þegar Þjasi jötunn nær valdi á Loka sem lofar honum Iðunni og æskueplum hennar til að losna. Loki stendur við sitt og Þjasi nær Iðunni til sín. Æsir komast að þessu og Loka er gert að endurheimta Iðunni og eplin. Honum tekst það en í hita leiksins drepa æsir Þjasa. Dóttir hans, Skaði, kemur í Ásgarð og vill hefna föður síns. Æsir bjóða henni föðurbætur en hluti þeirra fólst í því að Óðinn setti augu föður hennar upp á himininn þar sem þau skína sem stjörnur.
Stjörnuspeki
breytaSamkvæmt stjörnuspekinni eða stjörnuspáfræðinni spannar Tvíburamerkið tímabilið 21. maí til 20 júní. Táknmynd þess er ♊. Sá sem fæddur er á þessu tímabili er því tvíburi og honum eru ætlaðir ákveðnir eðlis- eða skapgerðareiginleikar. Þeir ráðast meðal annars af því að tvíburinn þarf fjölbreytni til að viðhalda lífsorku sinni. Best líður honum þegar mikið er um að vera og þess er þörf að hann sinni mörgum verkefnum á samtímis. Honum leiðist rútína og hann þreytist ef hann þarf að fást of lengi við það sama. Fjölbreytni og hreyfing eru honum nauðsyn. Hann þarf að skipta reglulega um umhverfi, enda er helsta viðkvæði hans: "Ég þarf aðeins að skreppa." Oft virðist sem Tvíburinn geymi tvo persónuleika innra með sér enda er gjarnan talað um tvíeðli þeirra sem eru í þessu stjörnumerki. Þetta birtist í fjölhæfni og þörf fyrir fjölbreytni, en einnig í óútreiknanlegu eðli eða því að hann getur sýnt tvö andlit, eftir umhverfi og aðstæðum.