Píka

(Endurbeint frá Tussa)

Píka (eða sköp) eru ytri kynfæri konu. Píkan nær yfir munaðarhólinn, ytri og inni skapabarmana, snípinn, risvefinn, leggangaopið, þvagrásaropið, og andarkirtlana. Á píkunni má líka sjá skaparifuna (bilið milli ytri skapabarmanna), fitukirtla, og kynfærahár.

Mismunandi kvensköp, í sumum tilfellum rökuð

Í víðari skilningi getur orðið píka líka verið notað til að vísa til hluta innri kynfæra konunnar, svo sem legganganna.

Hlutar píkunnar

breyta

Skapabarmarnir

breyta

Skapabarmarnir eru sá hluti píkunnar sem sést hvað best. Í konunni eru tvö pör af skapabörmum:

  • Ytri skapabarmarnir eru stærri. Þeir eru fósturfræðilega skyldir pung karlmanna.
  • Innri skapabarmar eru húðfelling sem kemur milli ytri skapabarmanna.

Munaðarhóllinn

breyta
 
Munaðarhóllinn.

Munaðarhóllinn er mjúkt lag af fituvef á fremri hluta píkunnar og liggur yfir lífbeininu (beininu í mjaðmargrindinni sem finna má fyrir í fremri hluta klofsins).[1] Bæði kyn hafa munaðarhól, en hann er meira áberandi í konum, munaðarhóllinn virkar eins og púði og verndar lífbeinið þegar fólk stundar samfarir. Skaparifan (bilið milli ytri skapabarmanna) nær inn á neðri hluta munaðarhólsins. Við kynþroska koma kynfærahár á munaðarhólinn og á ytri skapabarmana.[2]

Snípurinn

breyta

Snípurinn er hluti af kynfærum kvenkyns spendýra. Sýnilegi hluti snípsins sést þar sem innri skapabarmarnir mætast, fyrir ofan þvagrásaropið. Snípurinn er afar næmur og er helsta örvunarsvæði píkunnar, í snípshúfunni er áætlað að séu um 8.000 taugaendar.[3]

Snípurinn myndast út frá ákveðnum vef í fóstri sem kallast kynhnjótur. Ef fóstrið er útsett fyrir karlhormónum verður kynhnjóturinn að typpi, annars verður hann að sníp.

Þvagrásaropið og leggangaopið

breyta
 
1. Snípshúfan 2. Sýnilegi hluti snípsins 3. Innri skapabarmar 4. Þvagrásaropið 5. Leggangaopið 6. Spöngin 7. Endaþarmsopið.

Á svæðinu milli skapabarmanna má finna tvö op. Þvagrásaropið er fyrir neðan snípinn, þar fyrir neðan er leggangaopið. Þvagrásaropið er smátt, út úr því kemur þvag, leggangaopið er mun stærra og þaðan koma börn út við fæðingu.

Leggangaopið er stundum hulið að hluta til af meyjarhaftinu, sem er þunn himna sem getur rofnað í fyrsta sinn sem kona stundar samfarir. Vegna þessa var meyjarhaftið notað til að skera úr um hvort kona væri hrein mey í sumum samfélögum, þó að haftið geti alveg eins rofnað við íþróttaiðkun eða þegar túrtappar eru settir upp. Í mörgum stúlkum er meyjarhaftið svo lítið að það sést ekki, eða þá að það vantar alveg.[4]

Í aftari (neðri) hluta leggangaopsins má finna stóru andarkirtlana[a] sem seyta slími og sleipiefni. Stóru andarkirtlarnir samsvara klumbukirtlinum í mönnum (sem framleiðir forsæðisvökva). Litlu andarkirtlarnir eru í aftari vegg legganganna og samsvara blöðruhálskirtlinum í mönnum (sem framleiðir sæðisvökva).

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Svæðið milli innri skapabarmanna og þvagrásaropsins er nefnt „önd“ (í merkingunni „forgarður“, samanber orðinu „anddyri).

Tilvísanir

breyta
  1. „Anatomy and Physiology of the Female Reproductive System · Anatomy and Physiology“ (bandarísk enska). Phil Schatz.com.
  2. Marshall, WA; Tanner, JM (júní 1969). „Variations in pattern of pubertal changes in girls“. Archives of Disease in Childhood. 44 (235): 291–303. doi:10.1136/adc.44.235.291. PMC 2020314. PMID 5785179.
  3. Carroll, Janell L. (2012). Sexuality Now: Embracing Diversity. Cengage Learning. ISBN 978-1-111-83581-1. Bls. 110–111, 252
  4. King, Bruce M. (1996). Human sexuality today (2nd. útgáfa). Upper Saddle River, N.J.: Prentice Hall. bls. 24–28. ISBN 978-0-13-014994-7.

Tengt efni

breyta