Trajanus

(Endurbeint frá Traianus)

Marcus Ulpius Traianus (18. september 539. ágúst 117) var rómverskur keisari frá árinu 98 til 117. Hann var annar í röð hinna svonefndu fimm góðu keisara Rómaveldis. Á valdatíma Trajanusar náði Rómaveldi mestri útbreiðslu.

Trajanus
Rómverskur keisari
Valdatími 98 – 117

Fæddur:

18. september 53
Fæðingarstaður Italica, Hispaniu

Dáinn:

8. ágúst 117
Dánarstaður Selinus, Ciliciu
Forveri Nerva
Eftirmaður Hadríanus
Maki/makar Pompeia Plotina
Faðir Marcus Ulpius Trajanus
Móðir Marcia
Fæðingarnafn Marcus Ulpius Traianus
Keisaranafn Imperator Caesar Nerva Traianus Augustus
Ætt Nervu-Antoninska ættin
Tímabil Góðu keisararnir fimm

Leiðin til valda

breyta

Trajanus var fæddur í borginni Italicu í Hispaniu (núverandi Spáni) árið 53. Faðir Trajanusar var öldungaráðsmaður og hersöfðingi af Ulpia ættinni. Trajanus varð ungur hershöfðingi í rómverska hernum og varð snemma vinsæll og virtur á meðal hermannanna. Trajanus tók þátt í stríði Dómitíanusar gegn Germönum við Rín og var eftir það skipaður ræðismaður (consul) af Dómitíanusi, árið 91. Í kjölfarið sinnti hann embætti landsstjóra, fyrst í Moesiu inferior og síðan í Germaniu superior. Trajanus kvæntist Pompeiu Plotinu á einhverjum tímapunkti áður en hann varð keisari. Plotina var fædd í kringum árið 70 og var frá Gallíu.

Árið 97 var Trajanus ættleiddur af Nerva, þáverandi keisara, og útnefndur eftirmaður hans. Trajanus var þá staddur í Moguntiacum (Mainz) í Germaniu og sagan segir að Hadríanus hafi fært honum fréttirnar af ættleiðingunni. Nerva var almennt ekki vinsæll á meðal hermanna og til að vinna stuðning þeirra kaus hann að ættleiða hinn vinsæla Trajanus. Nerva stóð á þessum tíma andspænis uppreisn lífvarða sinna í Róm og þurfti því á hjálp Trajanusar að halda. Trajanus sendi leiðtogum uppreisnarinnar boð um að koma til sín til Germaniu svo hann gæti gefið þeim sérstakt verkefni. Þegar þeir komu til hans lét hann hins vegar taka þá af lífi. Nerva lést svo árið 98 og tók Trajanus þá við sem keisari Rómaveldis, átakalaust.

Valdatími

breyta

Fyrstu árin

breyta

Trajanus flýtti sér ekki til Rómar eftir að hann tók við völdum, heldur ferðaðist hann um norður-landamæri ríkisins. Hann skoðaði meðal annars ástandið meðfram Dóná (þar sem um þriðjungur alls herafla Rómaveldis var staðsettur) og þá aðallega við landamærin að Daciu. Dacia var konungsríki norðan Dónár (þar sem nú er Rúmenía), og höfðu Rómverjar fyrst barist við Decebalus konung í Daciu á valdatíma Domitíanusar en samið um frið eftir misheppnaða herferð.

Þegar Trajanus kom til Rómar árið 99 var honum ákaft fagnað af íbúum borgarinnar. Hann vann sér frekari hylli íbúanna með hógværð og aðgengileika. Einnig voru samskipti hans við öldungaráðið ávalt vinsamleg, ólíkt því sem hafði verið hjá mörgum öðrum keisurum. Almenningur fór að kalla hann Optimus, sem þýðir í raun „bestur“, og síðar staðfesti öldungaráðið titilinn.

Stríð í Daciu

breyta

Trajanus er einna helst þekktur fyrir hernaðarsigra sína, fyrst gegn Daciu og síðar gegn Parþíu. Trajanusi fannst Decebalus Daciukonungur ekki hafa staðið við skilmála sem hann hafði samþykkt eftir stríðið gegn Dómitíanusi. Trajanus undirbjó sig því fyrir innrás í Daciu með því að búa til tvær nýjar herdeildir (legionis) auk þess sem fleiri herdeildir voru færðar að landamærununum að Daciu. Trajanus réðst inn í Daciu árið 101 og sigraði her Decebalusar í hörðum bardaga. Eftir frekari átök árið 102 gafst Decebalus upp fyrir Trajanusi og sór honum hollustu sína. Decebalus hélt þó titli sínum sem konungur Daciu enda var svæðið ekki formlega innlimað inn í Rómaveldi. Trajanus seri aftur til Rómar til að fagna sigrinum og var veittur titillin Dacicus af öldungaráðinu.

Árið 105 gerði Decebalus svo innrás inn í rómversk landsvæði og reyndi að fá íbúa svæðanna til að gera uppreisn gegn Rómverjum. Trajanus svaraði með því að ráðast að nýju inn í Daciu. Árið 106 hertók hann höfuðborgina Sarmizegethusa og lagði hana í rúst. Í kjölfarið framdi Decebalus sjálfsmorð og Trajanus innlimaði Daciu og gerði að rómversku skattlandi. Til að fagna sigrinum lét Trajanus reisa Trajanusarsúluna í Róm.

 
Markaður Trajanusar í Róm.

Stjórnunarstefna

breyta

Trajanus viðhélt þeirri hefð að halda ásýnd lýðveldisins út á við með því að hafa samráð við öldungaráðið og aðrar stofnanir lýðveldisins, þó svo að völdin lægju í raun hjá honum. Hinn óvinsæli Dómitíanus hafði ekki fylgt þessari stefnu og vinsældir Trajanusar lágu að nokkru leiti í endurnýjun hennar. Einnig útdeildi hann ræðismannastöðum til manna sem hann treysti, í meiri mæli en aðrir keisarar. Keisarar flavísku ættarinnar höfðu til dæmis nánast einokað ræðismannastöðurnar á þeirra valdatíma en Trajanus, á þeim rúmu nítján árum sem hann var við völd, var ræðismaður einungis sex sinnum. Trajanus stofnaði embætti fulltrúa sem voru kallaðir curatores, og áttu þeir að sjá um fjármálastjórnun í skattlöndunum. Þekktastur af þessum embættismönnum er líklega Plinius yngri.

Ránsfengur frá stríðunum í Daciu gerði Trajanusi kleift að ráðast í ýmsar umfangsmiklar byggingaframkvæmdir víðs vegar um heimsveldið. Í Rómaborg lét hann byggja Baðhús Trajanusar, Markað Trajanusar (Mercatus Traiani) og Torg Trajanusar (Forum Traiani), þar sem Trajanusarsúlan stóð. Einnig stofnaði Trajanus opinberan sjóð sem kallaður var alimenta og var notaður til að aðstoða fátæk börn um allt Rómaveldi. Þessi sjóður var starfandi næstu 200 árin.

Stríð í Parþíu

breyta

Árið 113 hélt Trajanus í herferð gegn Pörþum í Persíu. Ástæðan var sú að Parþar höfðu sett konung hliðhollan sér á valdastól í Armeníu. Trajanus byrjaði á því að ráðast inn í Armeníu, sem hann hertók og gerði að skattlandi. Því næst réðst hann inn í Parþíu og hertók nokkrar borgir, þar á meðal höfuðborgina Ctesiphon árið 116. Trajanus innlimaði þessi svæði inn í Rómaveldi og gerði að skattlandinu Mesópótamíu. Eftir þetta hélt hann enn lengra austur og hertók borgina Susa (í núverandi Íran). Eftir þessa hernaðarsigra náði Rómaveldi sinni mestu útbreiðslu en Trajanus þurfti þá að snúa til baka vegna uppreisnar gyðinga í Mesópótamíu og Judeu. Seint á árinu 116 veiktist Trajanus og ákvað þá að halda til Rómar en lést áður en þangað var komið, sumarið 117. Eftirmaður Trajanusar, Hadríanus, lét herinn yfirgefa stór svæði sem Trajanus hafði innlimað, þ.á.m. Armeníu og Mesópótamíu, þar sem hann taldi að ómögulegt væri að verja þau gegn árásum óvinaherja.

Trajanus á að hafa ættleitt Hadríanus á dánarbeði sínu og útnefnt hann sem eftirmann sinn, en orðrómur fór þó flótlega af stað um að kona Trajanusar, Plotina, hafi haldið dauða hans leyndum í nokkra daga og á þeim tíma gengið frá því að öldungaráðið staðfesti Hadríanus sem eftirmann Trajanusar.

Heimildir

breyta
  • Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).
  • Benario, Herbert W., „Trajan (A.D. 98–117) Geymt 14 ágúst 2005 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (2003).


Fyrirrennari:
Nerva
Rómarkeisari
(98 – 117)
Eftirmaður:
Hadríanus