Ævintýri Tinna

(Endurbeint frá Tinnabækurnar)

Ævintýri Tinna (almennt kallaðar Tinnabækurnar á íslensku) (franska: Les Aventures de Tintin) er flokkur teiknimyndabóka eftir belgíska myndasöguhöfundinn og listamanninn Georges Remi sem hann skrifaði undir dulnefninu Hergé. Á frummálinu er útgefandi bókanna Casterman en Fjölvi hefur gefið hann út á íslensku, en þýðandi þeirra flestra er Loftur Guðmundsson. Einnig hafa verið gefnar út teiknimyndir um Tinna og félaga, og Steven Spielberg hefur leikstýrt þrívíddarteiknimynd eftir Leyndardómi Einhyrningsins og Fjársjóði Rögnvaldar rauða.

Árið 2019 hófst útgáfa Tinnabókanna hérlendis að nýju á vegum Frosks útgáfu. Komu þá út bækurnar Ferðin til tunglsins og Í myrkum mánafjöllum í nýrri þýðingu.

Ævintýri Tinna hafa náð vinsældum um allan heim og eru eitt af þjóðarstoltum Belga.

Aðalpersónur

breyta

Tinni (franska: Tintin) er aðalpersóna bókana og, ásamt hundinum Tobba, sú eina sem er í öllum bókunum. Hann er ungur rannsóknablaðamaður frá Belgíu og sú atvinna hans er mikilvæg í flestum bókunum. Í langflestum bókunum klæðist hann brúnum buxum, hvítum sokkum, brúnum skóm og blárri peysu með hvítri skyrtu innanundir. Hann er með ljóst, rauðleitt hár. Sköpun persónunnar er miðuð við árið 1929 en hann var þá byggður á eldri persónu Hergés, Totor, sem var skáti í sögum sem komu út á árunum 1926–1929. Framan af er ævintýragjörn hetja sem bjargar alltaf deginum. Í síðustu sögunum gerist það frekar að hann lendi í vandræðum og bjargi hlutunum svo.

Tobbi (franska: Milou) er hundur Tinna sem fylgir honum í öllum hans ævintýrum. Hann er terrier-hundur. Úr því að hann er hundur getur hann ekki talað og getur þar af leiðandi ekki haft samskipti við aðrar persónur. Þó eru mjög sterk bönd milli hans og Tinna og skilja þeir hvorn annan mjög vel. Hugsanir Tobba birtast stundum í talblöðrum, en hann er eina persónan sem lesendur fá að hann er að hugsa. Hann er sólginn í áfengi, en er illa við köngulær.

Skafti og Skapti

breyta

Skafti og Skapti (franska: Dupont et Dupond) eru leynilögreglumenn sem eru með öllu óhæfir í sínu starfi. Þeir eru mjög líkir að öllu leyti en algjörlega óskyldir. Þeir ganga báðir í svörtum jakkafötum, með svartan kúluhatt og staf, en þegar þeir eru á ferðum sínum reyna þeir oft að klæðast þjóðlegum búningum sem þeir halda að láti þá falla betur inn í hópinn. Þeir eru báðir með svart hár og hálfskalla og svart yfirvaraskegg sem eru örlítið ólík í laginu, en það er eini munurinn á útliti þeirra. Þeir ruglast mjög í tali og er það, ásamt almennri heimsku þeirra, algeng undirstaða brandara í bókunum.

Kolbeinn kafteinn

breyta

Kolbeinn kafteinn (franska: Capitaine Haddock) kynntist Tinna í bókinni Krabbinn með gylltu klærnar sem áfengissjúkur skipstjóri. Meðal annars með hjálp Tinna nær hann að yfirvinna áfengissýkina og þeir verða bestu vinir. Kolbeinn er á miðjum aldri, dökkhærður með alskegg. Hann klæðist jafnan svörtum buxum og jakka, blárri rúllukragapeysu með mynd af akkeri á og skipstjórahúfu. Eitt af hans helstu persónueinkennum eru blótsyrði hans. Hann blótar mjög mikið, oft með vísunum í sjómennsku. Á íslensku koma blótsyrðin oft fram í löngum, stuðluðum, runum. Frá því við lok bókarinnar um Fjársjóð Rögnvaldar rauða býr hann á sínu forna ættarsetri Myllusetri.

Prófessor Vilhjálmur Vandráður

breyta

Prófessor Vandráður (franska: Professeur Tryphon Tournesol) var seinasta aðalpersónan til að vera kynnt. Hann kom fyrst fram í Fjársóði Rögnvaldar rauða og við enda hennar flutti hann á Myllusetur til Kolbeins kapteins. Hann er afar heyrnarsljór uppfinningamaður sem finnur oft upp brjálæðislega hluti svo sem hátíðnihljóðsvopn og pillu til að lækna áfengissýki. Hann klæðist oftast svörtum buxum og jakka, hvítri skyrtu, svörtu bindi, grænum hatti og víðum grænum frakka. Hann er með svart skegg og hár, og hálfskalla. Einn þeirra muna sem hann er alltaf með á sér er pendúll sem hann notar til að finna alls kyns hluti. Brandarar í sögunum eru oft byggðir á því þegar Vandráður misheyrir eitthvað á skoplegan hátt.

Hugmyndafræði

breyta

Tinnabækurnar eru oft sagðar sýna skoðanir höfundarins, Hergé, á mjög augljósan hátt. Sagt hefur verið um Tinna að hann hafi verið hetjan sem hinn unga Hergé hefði dreymt um að verða. En persónu Tinna mætti lýsa sem venjulegum manni sem kemur upp um vondu karlana og sigrast á öllum erfiðleikum. En þó Tinni sé næsta fullkominn, þá hafa samferðamenn hans flestir augljósa galla. Einkum á það við um hinn drykkfellda Kolbein kapteinn sem Tinni þarf oft að bjarga úr vandræðum. Mikið af vandræðunum sem Tinni lendir í eru framfærð og mótuð af skoðunum Hergé, og Tinni hefur samúð og hjálpar þeim sem skapari hans leit á sem hjálparþurfi.

Fyrstu bækurnar eru augljóslega mjög litaðar af heimssýn Hergé; þær eru t.d. á móti bæði Bandaríkjunum og Sovétríkjunum en fylgjandi nýlendustefnu Evrópu. Bækurnar voru, líkt og andinn í Belgíu á þeim tíma, mjög þjóðernissinnaðar. Þegar Blái Lótusinn kom út hafði stefna Hergé breyst nokkuð þar sem samúðin var með Kínverjum gegn Japönum og vesturlandabúum og afskiptum þeirra í Kína. Veldissproti Ottókars konungs er augljóslega á móti Nasistum en sögurnar sem fylgdu í kjölfarið voru hlutlausar þar eð Belgía var hersetin af Þjóðverjum. Þær bækur sem á eftir komu eru ekki mjög pólítískar, en í Tinna og Pikkarónunum verður Tinni fyrst beinn þátttakandi í atburðarás, ekki bara áhorfandi og rannsakandi. Þar tekur hann þátt í byltingu sem verður að teljast ansi pólitísk.

Bækur

breyta

Ævintýri Tinna eru eftirfarandi, raðað í röð eftir því hvenær þau voru skrifuð (innan sviga eru nöfnin á frummáli):

  1. Tinni í Sovétríkjunum – (Tintin au pays des Soviets) (1929–1930) [ísl. útg. 2007]
  2. Tinni í Kongó – (Tintin au Congo) (1930–1931) [ísl. útg. 1976, 2020] (Birtist einnig sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1979–1980)
  3. Tinni í Ameríku – (Tintin en Amérique) (1931–1932) [ísl. útg. 1976, 2020]
  4. Vindlar Faraós – (Les Cigares du Pharaon) (1932–1934) [ísl. útg. 1972, 2021]
  5. Blái Lótusinn – (Le Lotus bleu) (1934–1935) [ísl. útg. 1977, 2021]
  6. Skurðgoðið með skarð í eyra / Arumbaya skurðgoðið – (L'Oreille cassée) (1935–1937) [ísl. útg. 1975, 2022]
  7. Svaðilför í Surtsey / Myrkey – (L'Ile noire) (1937–1938) [ísl. útg. 1971, 2022]
  8. Veldissproti Ottókars konungs / Veldissproti Ottókars – (Le Sceptre d'Ottokar) (1938–1939) [ísl. útg. 1974, 2023]
  9. Krabbinn með gylltu klærnar – (Le Crabe aux pinces d'or) (1940–1941) [ísl. útg. 1973]
  10. Dularfulla stjarnan – (L'Étoile mystérieuse) (1941–1942) [ísl. útg. 1971]
  11. Leyndardómur Einhyrningsins – (Le Secret de la Licorne) (1942–1943) [ísl. útg. 1976]
  12. Fjársjóður Rögnvaldar rauða – (Le Trésor de Rackam le Rouge) (1943–1944) [ísl. útg. 1977]
  13. Sjö kraftmiklar kristallskúlur – (Les Sept boules de cristal) (1943–1948) [ísl. útg. 1974]
  14. Fangarnir í sólhofinu – (Le Temple du soleil) (1946–1949) [ísl. útg. 1974]
  15. Svarta gullið – (Tintin au pays de l'or noir) (1948–1950) [ísl. útg. 1975]
  16. Eldflaugastöðin / Ferðin til tunglsins – (Objectif Lune) (1950–1953) [ísl. útg. 1972, 2019]
  17. Í myrkum mánafjöllum – (On a marché sur la Lune) (1950–1954) [ísl. útg. 1973, 2019]
  18. Leynivopnið – (L'Affaire Tournesol) (1954–1956) [ísl. útg. 1975]
  19. Kolafarmurinn – (Coke en stock) (1958) [ísl. útg. 1975]
  20. Tinni í Tíbet – (Tintin au Tibet) (1960) [ísl. útg. 1974]
  21. Vandræði Vaílu Veinólínó – (Les Bijoux de la Castafiore) (1963) [ísl. útg. 1977]
  22. Flugrás 714 til Sydney – (Vol 714 pour Sydney) (1968) [ísl. útg. 1976]
  23. Tinni og Pikkarónarnir – (Tintin et les Picaros) (1976) [ísl. útg. 1977]
  24. Tintin et l'Alph-Art – (hefur ekki enn verið þýdd) (1986) Ókláruð, gefin út að Hergé látnum.
  • Hákarlavatnið og Bláu Appelsínurnar eru gerðar eftir kvikmyndum og ekki eftir Hergé, en þó um Tinna og félaga. Umdeilt er hvort telja skuli þær til bókaflokksins um Ævintýri Tinna.

Kvikmyndir

breyta

Teiknimyndaþættir

breyta

22 af 25 Tinnabókunum voru gefnar út sem teiknimyndaþættir, og það sem við köllum "Tinnamyndirnar" eru í raun oftast tveir sjónvarpsþættir í einni mynd.

Þættirnir sem gerðir voru eru, í upprunalegri útgáfuröð:

Sería 1:

  1. 01-02 – Krabbinn með gylltu klærnar
  2. 03-04 – Leyndardómur Einhyrningsins
  3. 05 – Fjársjóður Rögnvalds Rauða
  4. 06-07 – Vindlar Faraós
  5. 08-09 – Blái Lótusinn
  6. 10-11 – Svaðilför í Surtsey
  7. 12-13 – Leynivopnið

Sería 2:

  1. 01 – Dularfulla stjarnan
  2. 02-03 – Skurðgoðið með skarð í eyra
  3. 04-05 – Veldissproti Ottókars konungs
  4. 06-07 – Tinni í Tíbet
  5. 08-09 – Tinni og Pikkarónarnir
  6. 10-11 – Svarta gullið
  7. 12-13 – Flugrás 714 til Sydney

Sería 3:

  1. 01-02 – Kolafarmurinn
  2. 03-04 – Sjö kraftmiklar kristallskúlur
  3. 05-06 – Fangarnir í sólhofinu
  4. 07-08 – Vandræði Vaílu Veinólínó
  5. 09-10 – Eldflaugastöðin
  6. 11-12 – Í myrkum mánafjöllum
  7. 13-14 – Tinni í Ameríku
  • Í viðbót við þættina 21 var Hákarlavatnið einnig gefin út sem kvikmynd.
  • Þær bækur sem voru ekki gefnar út á video eru Bláu Appelsínurnar, Tinni í Sovétríkjunum og Tinni í Kongó.

Kvikmyndin um Tinna

breyta

Árið 2011 var frumsýnd kvikmynd eftir Tinna-sögunum, Ævintýri Tinna: Leyndardómur Einhyrningsins. Myndinni er leikstýrt af Steven Spielberg en er framleidd af Peter Jackson. Myndin notast við blandaða tækni leikinna atriða og tölvugrafíkur í þrívídd. Fyrirhugað er að gera alls þrjár myndir.

Ævintýri Tinna - umfjöllun RÚV

breyta

Árið 2018 gerði Gísli Marteinn Baldursson útvarpsþætti um Ævíntýri Tinna þar sem fjallað er um bækurnar og útgáfu þeirra á íslensku. Gísli fær til sín ýmsa þekkta einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að vera miklir aðdáendur bókanna. Fjallað er um bakgrunn bókanna, persónur og viðfangsefni í samhengi við samtíma Hergé. Þættirnir eru aðgengilegir á hlaðvarpi RÚV. Geymt 17 október 2019 í Wayback Machine

Tenglar

breyta