Fjölnir (tímarit)

(Endurbeint frá Timarit Fjölnir)

Fjölnir var íslenskt tímarit sem kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1835-1847, alls 9 sinnum. Stofnendur Fjölnis hafa verið nefndir Fjölnismenn en þeir voru Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson, en á þeim tíma sem þeir stofnuðu Fjölni voru þeir allir við nám í Kaupmannahöfn.

Forsíðan á fyrsta eintakinu af Fjölni, árið 1835

Þeir gáfu ritið út til 1838 allir en 5. árganginn, 1839, gaf Tómas Sæmundsson út einn og á eigin kostnað og var Fjölnir það árið prentaður í Viðeyjarprentsmiðju. Tómas var þá fluttur heim og orðinn prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Síðan féll útgáfan niður um tíma en á því árabili dvaldist Jónas á Íslandi við náttúrurannsóknir. 1843 kom Fjölnir svo út að nýju en nú hafði félag nokkurt, Fjölnisfélagið eða Nokkrir Íslendingar, tekið við útgáfunni og voru þeir Gísli Magnússon fyrst og síðan Halldór Kr. Friðriksson ábyrgðarmenn. Tímaritið kom ekki út 1846 en síðasta tölublaðið birtist 1847, helgað minningu Jónasar Hallgrímssonar sem látist hafði vorið áður.

Fjölnir boðaði rómantísku stefnuna í íslenskum bókmenntum, mörg helstu kvæða Jónasar Hallgrímssonar birtust fyrst í Fjölni og hann var jafnframt vakningarrit í hreintungustefnu og þjóðfrelsis- og framfaramálum. Fjölnir hlaut misjafnar móttökur, m.a. vegna sérviskulegrar stafsetningar og þess að ráðamönnum þótti gorgeir vera fullmikill í þeim Fjölnismönnum, en tímaritið stuðlaði mjög að endurnýjun íslensks ritmáls og hafði langvinn áhrif á menningar- og stjórnmálalíf Íslendinga.


Tenglar

breyta
   Þessi dagblaðs eða tímaritagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.