Teitur (príor í Möðruvallaklaustri)

Teitur var íslenskur munkur sem var fyrsti príor í Möðruvallaklaustri en föðurnafn hans er óþekkt og ekki er vitað hvort hann kom úr einhverju öðru klaustri. Hann varð príor ári eftir stofnun klaustursins, 1296 eða líklega þó frekar 1297.

Ekki er vitað hve lengi hann var í embætti eða hvenær hann dó og því er ekki ljóst hvort hann var enn príor þegar klaustrið brann ásamt klausturkirkju og öllum skrúða árið 1316 en orsök brunans var sú að munkarnir komu drukknir heim úr kaupstað á Gásum og kveiktu í klaustrinu í ölæði. Klaustrið var ekki byggt upp að svo stöddu, enda taldi Auðunn rauði Hólabiskup sér það ekki skylt þar sem munkarnir hefðu sjálfir brennt ofan af sér. Hann lét þess í stað munkana verða presta í ýmsum sóknum eða tók þá heim til Hóla, en allar tekjur af klaustrinu gengu til Hólastaðar. Ekki er getið um neinn príor á þessu tímabili, hvorki Teit né aðra, og hefur hann líklega verið fallinn frá þegar klaustrið var endurreist 1326 því þá varð Þorgeir nokkur príor.

Heimildir

breyta
  • „Möðruvallaklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 13. ágúst 1967“.