Taugakerfið
Taugakerfið er kerfið sem er samansett úr taugum og sérstökum frumum sem eru þekktar sem taugafrumur en þær mynda flókin net sem senda merki eða boð á milli mismunandi líkamsparta. Það eru um 86 milljarða taugafrumna í fullvaxta heila (Matthews, 2020). Uppbygging taugafrumna er örlítið flókin en hver fruma er gerð úr frumubol og grönnum taugaþráðum. Frumurnar geta síðan flutt veik boð en þau kallast taugaboð. Þessi boð berast til frumubolsins með taugaþráðum sem eru kallaðir griplur og eru þetta stuttir þræðir. Síðan berast boðin áfram til annarra taugafrumna eftir löngum þráðum sem kallast sími. Síminn greinist svo í endann og kallast það símaendar og geta þeir verið margir. Símar geta verið allt frá meira en einum metra að lengd niður í fáeina millimetra. Boðin berast hraðar eftir taugasímum sem hafa um sig hlífðarlag úr fitu en þau boð geta farið meira en 100 metra á sekúndu. Símaendar geta svo tengst himnu annarra frumu en það kallast taugamót. Hver taugafruma getur haft þúsundir tengipunkta við aðrar frumur (Fabricius, 2011).
Uppbygging taugakerfisins
breytaTaugakerfið er sett saman úr tveimur hlutum, miðtaugakerfinu en þar undir falla mænan og heilinn, og úttaugakerfið en það skiptist í viljastýrða kerfið en það er kerfið sem við getum stjórnað með eigin vilja og sjálfvirka taugakerfið sem er ekki undir viljastjórn (Fabricius, 2011)( (Zimmermann, 2018).
Miðtaugakerfið
breytaTaugarnar sem liggja út frá heilanum flytja boð til líffæra líkamans til að mynda hreyfiboð sem gera okkur kleift að hreyfa okkur. Einnig eru taugar sem flytja boð til heilans en það eru boð til dæmis frá augunum, sem heilinn túlkar svo og býr til sjónhrif en það eru myndirnar sem við sjáum (Fabricius, 2011).
Úttaugakerfið
breytaViljastýrða taugakerfið stjórnar beinagrindavöðvum og sjálfvirka taugakerfið stjórnar svo hjartavöðvum, sléttum vöðvum og kirtlum. Sjálfvirka taugakerfið skiptist svo enn meira niður í drifkerfið og sefkerfið (Þuríður Þorbjarnardóttir, 2006).
Taugaviðbrögð og taugafrumur
breytaMænan sem er partur af miðtaugakerfinu er um það bil 45 cm langur strengur og liggur inni í holrúmi í hryggjarliðunum. Mænan er tengibraut fyrir taugaboð til og frá heilanum en hún er líka hraðtenging taugabrauta í taugaviðbröðgum sem kallast mænuviðbrögð.
Þegar skyntaugarnar sem koma inn í mænuna tengjast beint við hreyfitaugar til vöðvanna, þá fara boðin stystu leiðina til vöðvans og sleppa því að fara til heilans fyrst, þetta kallast mænuviðbrögð. Ein tegund af mænuviðbröðgum er sársaukaviðbragð en það er meðfætt. Ef að þú rekur hendina í eitthvað rykkir þú henni tilbaka án þess að hugsa um það. Skýringin á þessu er að skynfæri í hendinni senda boð til mænunnar eftir skyntaugafrumunum. Í mænunni vekja þau svo boð í hreyfitaugafrumum sem flytja svo boðið til vöðva í hendinni sem kippir henni frá því sem að olli henni sársauka. Þessi viðbrögð taka einungis fá sekúndubrot. Síðan, um leið og að taugaboðið hefur borist til handarinnar berst taugaboð til heilans um að þú hafir meitt þig í hendinni en þá ertu nú þegar búin að færa hana frá (Fabricius, 2011). Einnig eru til lærð viðbrögð en það er eins og það að hjóla. Þegar þú hjólar eða hleypur þá ertu ekki að hugsa um hverja hreyfingu sem líkaminn framkvæmir. Vöðvarnir og taugakerfið hafa ósjálfrátt lært að framkvæma þessar hreyfingar af því að þetta eru orðin lærð taugaviðbrögð (Fabricius, 2011).
Sumar taugar senda taugaboð til heilans, en þær kallast skyntaugar og aðrar senda boð frá heilanum en þær kallast hreyfitaugar. Starf skyntauga er að flytja boðin frá skynfærum, til sjónsvæðis, heyrnasvæðis og hinna starfsvæða heilans. Hreyfitaugarnar hins vegar stjórna öllum hreyfingunum okkar.
Þegar kemur að minninu hafa taugafrumurnar líka hlutverk. Þær mynda þétt net tenginga í heilanum og minnið byggist á því að þessar tengingar eru að breytast. Taugafrumurnar hafa líka hlutverk þegar kemur að fíkniefnum. Því þegar taugafrumurnar bregðast við efnum eins og nikótíni getur það skapað minni og það getur leitt til þess að heilinn vilji meira af efninu (Fabricius, 2011). Taugafrumur eru búnar til eða framleiddar á fósturstigi og er taugakerfið myndað um 18 dögum eftir getnað (Matthews, 2020).
Kvillar
breytaÞað geta komið upp sjúkdómar í taugakerfinu og eru til margar aðferðir við að rannsaka það. Læknar geta fylgst með því hvernig taugabrautirnar starfa með því að skoða jafnvægið og taugaviðbrögð. Einnig er hægt að skoða heilann með því að taka af honum sneiðmyndir svo er einnig hægt að skoða súrefnisnotkun og blóðflæði um heilann til að rannsaka starfsemi hans (Fabricius, 2011). Þar sem taugakerfið er heilinn, mænan og taugarnar sem stjórna hvernig líkaminn starfar þá geta taugasjúkdómar haft áhrif á svo margt. Þeir geta haft áhrif á hreyfigetu einstaklings og talgetu. Einnig getur einstaklingur sem þjáist af taugasjúkdómi átt erfitt með að kyngja, anda eða læra. Þetta getur líka haft áhrif á minni, skynfæri og hugarástand (Neurologic diseases, 2014). Þeir sjúkdómar sem geta komið upp í taugakerfinu eru misalvarlegir en geta til dæmis verið heiladauði, heilahimnubólga og flogaveiki en einnig er þunglyndi talið koma af því að það sé skortur á tilteknum boðefnum í heilanum (Fabricius, 2011).
Heimildir
breytaFabricius, S. H. (2011). Mannslíkaminn. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
Matthews, P. (9. April 2020). Human nervous system. Sótt af https://www.britannica.com/science/human-nervous-system
Neurologic diseases. (29. September 2014). Sótt af https://medlineplus.gov/neurologicdiseases.html
Zimmermann, K. (14. February 2018). Nervous system: Facts, function & diseases. Sótt af https://www.livescience.com/22665-nervous-system.html
Þuríður Þorbjarnardóttir. (28. September 2006). Afhverju svitnar maður þegar maður er kvíðinn eða stressaður. Sótt af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6215#