Take That er bresk drengjahljómsveit sem stofnuð var árið 1990 í Manchester á Englandi. Sveitin samanstendur af þeim Gary Barlow, Mark Owen, Jason Orange og Howard Donald og áður var Robbie Williams einnig meðlimur sveitarinnar. Er sveitin aðallega söngsveit en hafa einhverjir meðlimir sveitarinnar spila þó á hljóðfæri og semja lög og texta. Eftir stórkostlega velgengni á tíunda áratug síðustu aldar, þegar meðlimir voru enn þá fimm talsins, hefur bandið aftur náð vinsældum á síðustu árum, þó án Robbie Williams.

Take That á tónleikum árið 2007.

Take That seldi yfir 60 milljón plötur á árunum 1991-1996. Áttu þeir meðal annars tvær mest seldu plötur áratugarins; Everything Changes árið 1994 og Greatest Hits árið 1996. Bandið hætti störfum árið 1996 en eftir að heimildamynd og „greatest hits“ plata voru gefnar út árið 2005 tilkynntu drengirnir að þeir ætluðu á tónleikaferð árið 2006; The Ultimate Tour. 9. maí 2006 var tilkynnt að Take That stefndi á að taka upp sína fyrstu stúdíóplötu (Beautiful World) í yfir 10 ár. Sveitin gáfu út aðra plötu, The Circus.

Fyrstu árin (1989-1993)

breyta

Árið 1989 ákvað Nigel Martin-Smith að setja saman breska drengjasveit. Hafði hann séð New Kids on the Block rísa hratt til frægðar í Bandaríkjunum og áttaði sig á því að það var engin sambærileg sveit í Bretlandi. Sú sýn sem Nigel Martin-Smith hafði var hins vegar fullorðinslegri og beindist frekar að unglingum en sú sakleysislega ímynd sem New Kids on the Block skartaði í fjölmiðlum.

Áheyrnarprufur fyrir bandið voru haldnar um alla Manchesterborg, hvar Nigel Martin-Smith hitti öngvarann og blómstrandi lagahöfundinn Gary Barlow (þá 18 ára) og þótti strax mikið til hans koma. Gary Barlow hafði verið hafnað af stórum útgáfufyrirtækjum en hafði verið að spila lifandi tónlist á krám víðsvegar um Norður England. Hann hafði einnig unnið nokkrar samkeppnir og hafði samið A Million Love Songs aðeins 15 ára gamall. Aðrir sem komu í áheyrnarprófin voru hinn 17 ára Mark Owen, fyrrum fyrirsæta og knattspyrnumaður sem nú starfaði sem gjaldkeri í banka. Howard Donald, bílamálari, fyrrum fyrirsæta og skífuþeytir/breakdansari, var með þeim elstu til að taka þátt í prufunum, 21 árs að aldri. Jason Orange, 18 ára, var reyndur breakdansari en vann sem málari og veggfóðrari. Að lokum brá Nigel Martin-Smith á það ráð að auglýsa í fjölmiðlum og fann þannig fimmta meðlim sveitarinnar; Robbie Williams.

Take That bjó til nýja leið í tónlistarbransanum og voru í raun frumkvöðlar þessarar tegundar tónlistar, strákasveitanna, utan Bandaríkjanna. Þeir byrjuðu með dansvænni lög til að koma til móts við dans- og diskósenuna sem þá var í gangi í Bretlandi. Á fyrstu árunum voru þeir snyrtilega til fara, yfirleitt klæddir í svartan leðurklæðnað en á hátindi frægðarinnar voru þeir þekktir fyrir fullorðinslegri ímynd. Á meðan sveitin var sem þekktust státuðu drengirnir af líkamsgötum ýmiss konar, húðflúrum, skeggvexti og, í tilfelli Howards, dreddum í hári.

Tímamót urðu hjá Take That þegar þeir gáfu út lagið It Only Takes A Minute, endurútgáfu lags frá 1970, sem fór hæst í sjöunda sæti breska smáskífulistans. Góðum árangri var fylgt eftir með I Found Heaven og þar á eftir með fyrsta lagi Gary Barlow, A Million Love Songs. Komust bæði lögin á vinsældalista. Ábreiða þeirra af diskósmelli Barry Manilow, Could It Be Magic, varð þeirra stærsti smellur þegar þarna var komið við sögu og komst í þriðja sæti vinsældalista í Bretlandi. Fyrsta platan, Take That & Party, var gefin út 1992 og innihélt alla smelli drengjanna.

Súperstjörnur (1993-1995)

breyta

Platan Everything Changes var gefin út ári 1993 og var að stærstum hluta efni eftir Gary Barlow. Gaf þessi plata af sér fjórar smáskífur sem lentu í fyrsta sæti vinsældalista í Bretlandi; Pray, Relight My Fire, Babe og Everything Changes. Fimmta smáskífan, Love Ain‘t Here Anymore, komst í þriðja sæti vinsældalista. Með Everythings Changes öðlaðist sveitin alþjóðlega velgengni. Þó komst þeim ekki að komast inn á markað í Bandaríkjunum. Hins vegar var sveitin orðin vel þekkt í Evrópu og Asíu. Það var þó ekki fyrr en 1995 sem Take That fór í sína fyrstu stóru tónleikaferð.

Það var árið 1994 sem Take That kom fram á forsíðum fjölda tímarita, allt frá Smash Hits til GQ, og að auki var framleiddur alls kyns varningur í þeirra nafni. Bækur, veggspjöld, límmiðar, dúkkur, skartgripir, húfur, bolir og tannburstar. Sveitin hóf einnig að fara tónleikaferðalög um Evrópu og seldust upp miðar á nánast alla tónleika þeirra í Englandi, Berlín og Mílanó. Take That hafði einnig öðlast risastóran kvenkyns aðdáendahóp enda sveitin álitin ný og spennandi og samanstóð af fimm laglegum piltum frá Manchester sem gátu „dansað, brosað og sungið samhljóm.“ Þetta leiddi af sér „Take That undrið“ um gjörvallt Bretland, vanalega undirstrikað með hópum táningsstúlkna sem komu saman hvar sem sveitin átti að koma fram. Á þessum tíma kom sveitin fram á fjölmörgum tónlistarverðlaunahátíðum eins og Brit Awards og Top of the Pops, enda fastagestir á slíkum hátíðum eftir að hafa sent frá sér fimm smelli í röð 1994.

Þegar platan Nobody Else var gefin út árið 1995 komst fyrsta smáskífa plötunnar, Sure, strax á topp vinsældalista í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en önnur smáskífan kom út að Take That sá sína langvinsælustu smáskífu verða að veruleika. Back for Good fór í fyrsta sæti vinsældalista í 31 landi, víðsvegar um heiminn. Sveitin frumflutti lagið á Brit-verðlaununum 1995 og hlaut fyrir vikið frábæra dóma og undirtektir. Never Forget var svo síðasta smáskífan af samnefndri plötu. Platan var einnig þekkt fyrir að vera skopstæling af umslagi Bítlaplötunnar Sgt. Pepper‘s Lonely Hearts Club band.

Brottför Robbie Williams og upplausn Take That (1995-1996)

breyta

Í júlí 1995 yfirgaf Robbie Williams Take That og var myndaður við að skemmta sér á Glastonbury-hátíðinni með bresku rokkurnum í Oasis. Þeir fjórir sem eftir stóðu héldu áfram að kynna Nobody Else og kláruðu tónleikaferðalag í júlí 1995.

Þann 13. febrúar 1996 tilkynntu meðlimir Take That að bandið yrði þá og þegar lagt niður. Þeir gáfu í kjölfarið út safndisk með bestu lögum sveitarinnar sem innihélt einnig nýja útgáfu Bee Gees lagsins How Deep Is Your Love. Smáskífan sú varð síðasta topplag sveitarinnar þar til bandið kom saman aftur nærri áratug síðar.

Endurfundir

breyta

The Ultimate Tour og Beautiful World (2005-2007)

breyta

14. nóvember 2005 kom út safnplata sem innihélt einnig áður óútgefið lag. Komst hún í efstu sæti breskra vinsældalista. Nýja lagið, Today I‘ve Lost You, var upprunalega skrifað til að fylgja eftir vinsældum Back for Good en var aldrei tekið upp. 16. nóvember 2005 kom Take That saman í heimildamyndinni Take That: For The Record fyrir ITV sjónvarpsstöðina. Í myndinni segja meðlimir sína sögu og skoðnir á upplausn bandsins og frá því hvað þeir hafa haft fyrir stafni þann áratug síðan sveitin laggði upp laupana. 25.nóvember 2005 héldu drengirnir blaðamannafund þar sem þeir tilkynntu að þeir hyggðust leggja upp í tónleikaför 2006. Tónleikaferðalagið, sem kallaðist Ultimate Tour, stóð frá apríl – júní 2006.

Take That sneri aftur í tónlistarbransann eftir áratug og skrifaði undir samning við Polydor Records útgáfufyrirtækið sem sagður er hafa verið 3 milljón punda virði. Á einum mánuði seldist endurkomuplata sveitarinnar, Beautiful World, í 2,7 milljón eintökum í Bretlandi. Ólíkt fyrri plötum sveitarinnar, á hverjum Gary Barlow hafði samið langmest af efninu, þá voru öll lögin á nýju plötunni samin af meðlimum sveitarinnar öllum. Patience, smáskífan sem markaði endurkomu Take That var gefin út 20. nóvember 2006. Þann 26. nóvember 2006 fór Patience í fyrsta sæti vinsældalista í Bretlandi og var þá orðin níunda topplag Take That. Velgengni Take That hélt áfram 14.febrúar 2007 þegar sveitin kom fram á BRIT verðlaunahátíðinni á Earl‘s Court. Patience vann verðlaun fyrir bestu bresku smáskífuna það kvöld.

Árið 2007 sömdu meðlimir Take That einnig lagið Rule the World fyrir kvikmyndina Stardust. Rule the World komst í annað sæti vinsældalista á Bretlandi og varð fimmta mest selda smáskífa ársins. 11.Octóber 2007 hófu Take That tónleikaför sína í Belfast á Írlandi. Þeir spiluðu á 49 tónleikum í Evrópu og var lokið í Manchester þann 23. desember.

The Circus (2008-2009)

breyta

Fyrsta smáskífa plötunnar The Circus, Greatest Day, var frumflutt í útvarpi 13. október 2008 og gefin út 24. nóvember sama ár. Hún komst í fyrsta sæti smáskífulistans 30. nóvember 2008. The Circus var gefin út í Bretlandi 1. desember 2008, komst í fyrsta sæti vinsældalistans og var þar í tvær vikur. Það var svo tilkynnt á Radio 1 þann 28. október 2008 að Take That ætluðu aftur í tónleikaferð í júní – júlí 2009. Miðar fóru í sölu 31. október og hafa nú selst yfir milljón miðar á Circus-tónleikana. Önnur smáskífa plötunnar, Up All Night var gefin út 2. mars 2009.

Heimild

breyta

Greinin Take That á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. janúar 2009.